Hringbraut er 3ja ára í dag

Mörg hundruð sjónvarpsþættir að baki og sífellt meira áhorf um allt land:

Hringbraut er 3ja ára í dag

Sjónvarpsstöðin Hringbraut fagnar 3ja ára afmæli í dag, konudag, en hún hóf útsendingar 18. febrúar 2015 með viðtalsþættinum Mannamáli þar sem frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands ræddi um ævi sína og störf, en hún varð þar með fyrsti viðmælandi stöðvarinnar.

"Þessi tími hefur verið ævintýri líkastur," segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri og dagskrárstjóri Hringbrautar sem stofnaði sjónvarpsstöðina ásamt Guðmundi Erni Jóhannssyni, sjónvarpsstjóra á jólaföstu 2014, en aðdragandinn að fyrstu útsendingum stöðvarinnar var rífir tveir mánuðir. Þeir tvímenningar voru í byrjun einu föstu starfsmenn stöðvarinnar, en nú starfa 14 manns í fullri vinnu á Hringbraut.

"Það má heita að við höfum verið jafn heppnir með allt starfsfólk okkar og við höfum verið lánsamir með áhorfendur okkar - og það er kannski lykillinn að þeirri velgengni og velvilja sem stöðin hefur notið á þessum árum," bætir dagskrárstjórinn við. "Við höfum verið með ungt og vel menntað tæknifólk innan um reynslumikið dagskrárgerðarfólk og þessi blanda, ásamt harðduglegu sölufólki, hefur gert það að verkum að við lifum enn við þokkalegu heilsu á einhverjum erfiðasta vinnumarkaði Íslands þar sem ríkisvaldið skekkir samkeppnina eins og frekast verður gert í frjálsu samfélagi." Hann segir að þetta hafi verið barátta upp á líf og dauða hvern dag, "en það er líka það sem gerir þetta skemmtilegt og eftirsóknarvert," bætir Sigmundur Ernir við.

Hringbraut hefur að jafnaði framleitt 12 sjónvarpsþætti á viku sem speglað hafa íslenskt samfélag í öllum sínum fjölbreytileika, en fræðsla, menning og þjóðmálaumræða hefur verið leiðarstefið í dagskrá stöðvarinnar, ásamt margs konar lífsstílsþáttum og íslenskum útivistar- og heimildarmyndum.

Tímamót urðu nýverið í dreifingu og útbreiðslu Hringbrautar, en nú eiga 99,4 prósent heimila kost á að ná útsendingum stöðvarinnar, hvort heldur er í gegnum ljósleiðara, ljósnet eða uhf-loftnet. Áhorf á Hringbraut hefur aukist verulega frá byrjun útsendinga, enda hefur stöðin markað sér sérstöðu fyrir vandaða íslenska dagskrárgerð og tæknivinnslu.

"Á þessum árum hafa á fjórða þúsund gesta komið til okkar og viðrað alla vega skoðanir sínar á mönnum og málefnum, skipst á skoðunum og sagt okkur sögurnar sínar, svo Hringbraut hefur í raun og sann verið afskaplega skemmtilegt mannlífstorg á þessum þremur árum," segir Sigmundur Ernir.

Hann vill að lokum þakka öllu því starfsfólki sem hefur komið við sögu Hringbrautar á mótunarárunum, en þar á meðal er margt reyndasta sjónvarps- og tæknifólk landsins. "Og svo ber auðvitað að þakka tryggum áhorfendum okkar fyrir þeirra þátt í lífi og farsæld stöðvarinnar - og náttúrlega auglýsendum um allt land sem skipta reksturinn svo miklu máli," segir Sigmundur Ernir að lokum, bjartsýnn á komandi tíma í sögu Hringbrautar.

Nýjast