Hlýnun og súrnun sjávar gæti útrýmt þorskinum

Norður-Atlantshafsþorskstofninn í Barentshafi gæti orðið að engu fyrir lok þessarar aldar ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða í loftslagsmálum. Slík er ógnin sem stafar af hlýnun og súrnun sjávar á þessum slóðum. Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Fiskifrétta og vísað til umfjöllunar The Guardian um nýja rannsókn.

Niðurstöður rannsóknar Arctic Monitoring and Assessment Programme, alþjóðastofnunar sem vaktar ástand sjávar í Norður-Íshafinu, eru þær að dánartíðni þorsklirfa er 75 prósent hærra við báða áhrifaþætti, þ.e. hlýnun og súrnun sjávar, en þegar einungis er um að ræða hlýnun sjávar. Stofninn muni því minnka hraðar en áður var talið.

Vegna hlýnunar sjávar leitar þorskur í auknum mæli til Barentshafsins og Íslandsmiða. Þá er hlýnun sjávar hraðari á þessum hafsvæðum en annars staðar. Á sama tíma er súrnun sjávar hvergi meiri en á þessum slóðum. Líklegt þykir að þorskstofninn stækki verulega fyrst um sinn en hrynji síðan niður og útrýmist jafnvel með öllu.