Hjörvar: þingmenn vilja flugvöllinn í vatnsmýri til að geta farið beint á barinn

„Ég lenti í því á laugardagsmorgun að dásama Reykjavíkurflugvöll á Twitter. Hér var ég að fljúga til að horfa á dóttur mína spila og ég þakkaði Reykjavíkurflugvelli fyrir að vera þar sem hann er. Ef þetta væri í Keflavík hefði ég þurft að leggja af stað hálf sjö.“

Þetta sagði körfuboltaþjálfarinn og útvarpsmaðurinn Kjartan Atli Kjartansson í Brennslunni á FM957 í morgun. Þar ræddu Kjartan og Hjörvar Hafliðason um staðsetningu flugvallarins. Hjörvar kallar Keflavíkurflugvöll Sandgerðisvöllinn og telur að hægt sé að gera mun betur þegar kemur að aðgengi að vellinum. Hjörvar sagði:

„Þú ættir að geta farið beint til vinstri í stað þess að keyra upp alla heiðina. Breyta aðgenginu að flugvellinum, þetta eru extra sjö mínútur í ekkert.“

Kjartan svaraði að hann skildi báðar hliðar. „Ég hef hugsað það sé fáránlegt að vera með flugvöll inni í miðri borg. Síðan hef ég hugsað að það er líka gott að vera með flugvöll þarna. Er það ekki bara sölupunktur fyrir Reykjavík,“ sagði Kjartan.

Hjörvar  sagði þá að svæðið væri fallegt og séð frá svölunum á Perlunni væri nánast eins og öll Reykjavík væri undirlögð undir flugvöll.

„Ef ég væri alþingismaður myndi ég elska þetta,“ sagði Hjörvar og bætti við: „Því þú ferð inn í vélina, eina liðið sem situr þarna er alþingismenn og frægt fólk. Þeir sem eiga flestu ferðirnar eru Hreimur í land og sonum, Magni á móti sól, Árni Johnsen, Steingrímur Joð, Kristján Möller,“ sagði Hjörvar og bætti við að hann væri vinur Sandgerðis og vildi því halda flugvellinum á sínum stað. Þá bætti hann við að með því að færa innanlandsflug til Keflavíkur væri hægt að dreifa ferðamönnum sem sækja landið heim.

Kjartan Atli kvaðst þá vera mikill vinur landsbyggðarinnar. Kjartan bætti við: „Það er nú bara þannig að það eru skannar sem eru ekki til úti á landi, bara í höfuðborginni. Fólk er að fljúga sérstaklega til að koma í test eftir að hafa hitt lækninn sinn kemur í bæinn þeirra á miðvikudegi klukkan fjögur, því þannig er heilbrigðisþjónustan úti á landi,“ sagði Kjartan og bætti við að fólk myndi ekki finnast taka því að lenda í Keflavík og keyra svo í bæinn. Hjörvar benti á að slík ferð tæki aðeins rúman hálftíma.

Þá útskýrði Hjörvar af hverju landsbyggðarþingmenn vilja, að hans mati, hafa flugvöllinn í höfuðborginni: „Þú lendir næstum inni á barnum. Það er svo næs,“ sagði Hjörvar og bætti við: „Klaustur er bara tveim mínútum frá. Það er það sem landsbyggðar þingmennirnir vilja. Geta farið beint þarna inn.