Hinsegin dagar hefjast í dag – hátíðin fagnar 20 ára afmæli

Hinsegin dagar hefjast í dag og munu standa yfir í 10 daga frá 8. – 17. ágúst. Hátíðin verður sett klukkan 12 í dag þegar regnbogi verður málaður á Klapparstíg frá Laugavegi upp að Grettisgötu. Hinsegin dagar fagna 20 ára afmæli í ár. Mannlíf greinir frá.

Í kvöld klukkan 21 fer opnunarhátíð Hinsegin daga fram í Háskólabíói. Margt verður um að vera og tugir viðburða verða í boði. Á meðal þeirra eru fræðslugöngur, fyrirlestrar, viðburðir tengdir listum og menningu auk skemmtanahalds og tónleika.

Í tilkynningu Hinsegin daga um hátíðina segir um opnunarhátíðina: „Hér kemur fjölskyldan saman og á þessum merku tímamótum verður litið um öxl og þess minnst sem á daga okkar hefur drifið frá því að fyrsta hinsegin hátíðin var haldin á Ingólfstorgi 26. júní árið 1999. Við skyggnumst í fjölskyldualbúmið og að venju mun hópur framúrskarandi listafólks stíga á stokk og færa okkur söng, dans og gleði í hæsta gæðaflokki.“

Hápunktur Hinsegin daga er þó sem kunnugt er Gleðigangan, sem mun fara fram laugardaginn 17. ágúst og hefjast klukkan 14.

Í tilkynningu Hinsegin daga segir um Gleðigönguna:

„Í henni sameinast lesbíur, hommar, tví– og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína, sýnileika og gleði, ásamt því að minna á þau baráttumál sem skipta hvað mestu máli hverju sinni.“