Hinir ósnertanlegu

Eitthvert skringilegt jaðarfyrirtæki í undirdjúpum fjármálalífsins fékk á dögunum lögbann sýslumanns gegn fjölmiðli. Þetta gerðist í undanfara kosninga til Alþingis. Sú árátta að bjarga almenningi frá upplýsingum birtist í ýmsum myndum.

En svo eru þeir sem rembast við að upplýsa. Einn þeirra er Karl Th. Birgisson blaðamaður sem ritað hefur býsna greinargóða ritgerð um þau ,,mál” sem sumir kalla ,,árásir á Bjarna Benediktsson”, aðrir kalla Vafningsmálið, Panamaskjölin, Borgunarhneykslið og ýmis önnur sem koma við sögu.

Bókin kom út nánast á sömu mínútu og Katrín Jakobsdóttir varð forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson aftur fjármálaráðherra.

Hún á erindi vil alla sem hafa áhuga á íslensku samfélagi. Hvort sem maður er til hægri eða vinstri eða bara hvorugt eins og hver annar Pírati, er gagn af þessari bók. Ég hugsa að hún nái ekki yfir ,,allt það sem þú veist ekki um Vafningsmálið en nenntir aldrei að lesa um” en fer býsna nærri því. Og svo er hún líka um sumt sem er ekki nokkur leið að botna í.

Læsilegar 120 blaðsíður sem hjálpa þér gegnum lögbannið.