Hermannaveiki í húsnæði eldri borgara: sjötugur karlmaður veiktist alvarlega

Um miðjan febrúar á þessu ári greindist alvarleg lungnabólga af völdum hermannaveikibakteríu (Legionella pneumophilia) hjá sjötugum karlmanni. Maðurinn býr í húsnæði fyrir eldri borgara í Reykjavík. Haft var samband við Heilbrigðiseftirlit borgarinnar, sem kannaði vatnslagnir í húsinu, og kom í ljós að bakteríuna var að finna í miklu magni í vatnshausum í íbúðinni og einnig í minna magni í öðrum íbúðum sem tengdust sömu vatnslögn.

Bakterían fannst ekki í öðrum vatnslögnum í húsinu og ekki virðast aðrir íbúar hússins hafa sýkst af völdum hennar.

Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Farsóttafrétta, fréttabréfi sóttvarnalæknis.

Þar segir að bráðabirgðaaðgerðir Heilbrigðiseftirlitsins hafi verið fólgnar í því að láta heitt vatn, yfir 60⁰C, renna í 2-3 mínútur áður en farið er í sturtu til að hreinsa bakteríurnar úr sturtuhausum. Einnig þurfi að lagfæra viðkomandi vatnslögn í húsinu.

Um hermannaveikibakteríuna segir að legionella sé baktería sem lifir í vatni og er algeng um allan heim. Hún þolir hitastig frá 0–50°C en lifir best í 30–40°C. Bakterían getur sest að í lokuðum endum pípulagna stórra bygginga þar sem vatnið stendur kyrrt og hitastig er ekki hátt og getur smitast þegar svifúði (aerosol) myndast frá vatnsleiðslum eða vatnstönkum (t.d. í sturtu) og móttækilegur einstaklingur andar að sér.

Fullfrískir einstaklingar geti fengið bakteríuna í öndunarveg án þess að veikjast og er hún hættulítil í þeim tilvikum. Alvarleg veikindi eins og lungnabólga verða einna helst hjá einstaklingum með undirliggjandi áhættuþætti. Þeir eru helst hár aldur, reykingar, langvinnir lungnasjúkdómar, ónæmisskerðing, áfengissýki og nýrnabilun.