Héraðið frumsýnd í næstu viku – „svolítið verið að skjóta á kaupfélag skagfirðinga“

„Ég viðurkenni það alveg að kveikjan að hugmyndinni eru sögur úr Skagafirði um samskipti bænda við kaupfélagið og svona árekstra. Fólk sem sér myndina á alveg eftir að sjá einhverja tengingu, enda er KS eina öfluga kaupfélagið sem er eftir.“

Þetta segir leikstjórinn og handritshöfundurinn Grímur Hákonarson í samtali við Viðskiptablaðið, um söguþráð nýjustu kvikmyndar sinnar. Myndin ber heitið Héraðið og segir frá Ingu, miðaldra kúabónda sem gerir uppreisn gegn hinu skáldaða Kaupfélagi Erpsfirðinga.  Hún reynir að fá aðra bændur í lið með sér en það gengur erfiðlega þar sem kaupfélagið hefur sterk ítök í sveitinni.

Kaupfélagi Erpsfirðinga svipar ansi mikið til Kaupfélags Skagfirðinga og segir Grímur það enga tilviljun. Hann segir að þrátt fyrir þessar skírskotanir til KS og að myndin sé að hluta til byggð á sönnum sögum um félagið sé myndin þegar allt komi til alls skáldskapur:

„Þetta er ekki heimildarmynd um Kaupfélag Skagfirðinga. Það er svolítið verið að skjóta á það, en það er mestmegnis á léttum nótum.“

Grímur bendir einnig á að þar sem kaupfélagið sé í andstöðu við söguhetjuna Ingu sé það óumflýjanlega í hlutverki „vonda kallsins“, söguþráðarins vegna. „Kaupfélagsstjórinn fær alveg að koma með sitt sjónarmið, þetta er ekki einhliða mynd. Margir áhorfendur verða jafnvel meira sammála honum en Ingu,“ segir hann og bendir á að framsetning þessara andstæðna sé langt frá því að vera svart-hvít.

Söguhetjan byggð á nokkrum konum

Hann segir söguhetjuna Ingu, sem er leikin af Arndísi Hrönn Egilsdóttur, byggða á nokkrum konum sem hann þekki úr sveitinni. „Baráttukonum sem hafa risið upp í þessu íhaldssama bændasamfélagi,“ segir Grímur og bætir við að í því samfélagi séu kynjahlutverk heldur fastmótaðri og meira gamaldags en víðast hvar annars staðar.

Margverðlaunaður leikstjóri

Síðasta kvikmynd Gríms, Hrútar, naut gífurlegrar velgengni á erlendri grund, þar sem hún sankaði að sér verðlaunum á kvikmyndahátíðum. Alls vann myndin til 30 alþjóðlegra verðlauna, ásamt 11 Edduverðlauna.

Hæst ber að nefna Un Certain Regard verðlaunin fyrir bestu mynd, sem Hrútar hlaut á einni stærstu kvikmyndahátíð heims, Cannes hátíðinni í Frakklandi. Myndin var heimsfrumsýnd á hátíðinni.