Hér ríkir ekki flóttamannavandi

Það er ekki flóttamannavandi á Íslandi - og því þá að haga sér eins og í tilviki stúlknanna tveggja sem stjórnvöld ætla að senda úr landi, þvert á gildi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þetta er mat Bjarna Ólafssonar, fyrrverandi ritstjóra Viðskiptablaðsins sem er annar tveggja viðmælenda Sigmundar Ernis í Ritstjóraþætti kvöldsins, en Karl Garðarsson, fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2 og þingmaður á síðasta kjörtímabili er hins vegar meira tvístígandi í afstöðu sinni til gerninga stjórnsýslunnar; hann kveðst skilja bæði sjónarmiðin sem hafi heyrst í málinu en geti engan veginn kveðið upp úr með það hvort þeirra sé skynsamlegra, en almennar reglur séu þó almennt taldar eðlilegri en þær sértæku.

Pólitíski veturinn er einnig mjög til umræðu í þætti kvöldsins, ásamt fjárlögunum og líðan stjórnarsamstarfsins, svo og fátæktargildra gamla fólksins sem aldrei fær athygli fjölmiðla og eins er spurt hvort virtir miðlar á borð við RÚV eigi ekki að skammast sín og iðrast þegar þeir gera jafn stórt í brókina og í veitingahúsamálinu á Akureyri á dögunum.

Svo er hlegið að ungum sjálfstæðismönnum í lokin sem vilja byrja pólitíska ferilinn á svindli.

Ritstjórarnir eru frumsýndir öll þriðjudagskvöld klukkan 21:00.