Hendum 5000 tonnum af plasti árlega

Reiknað er með því að meira plast en fiskur verði í sjónum árið 2050 verði ekki dregið verulega úr plastsorpi í veröldinni. Níutíu prósent af öllu sorpi í hafinu er plast.  Þetta er staðreynd sem kom fram í viðtali við Hólmfríði Þorsteinsdóttur, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun á Hringbraut í dag. Fram eru komnar tillögur um að draga úr notkun plastpoka hér á landi og er það fyrsta skrefið í átt að minni notkun plasts hér á landi.

Að öllum líkindum verður blásið til einhvers konar vitundarherferðar, segir Hólmfríður en verslanir séu mjög jákvæðar gagnvart því að minnka plastpokanotkun og til dæmis því ekki bjóða upp á plastpoka lengur undir vörur sínar í framtíðinni. Hér á landi hendum við árlega 5000 tonnum af plasti. Sumt er urðað en annað endurnýtt. Hólmfríður sagði þó að ekki væri um róttækar tillögur að ræða þar sem áhersla er lögð á að fólk verði jákvætt gagnvart minnkun plastsins og upplifi ekki boð og bönn.

Lagt er til að farið verði eftir breytingum sem gerðar verða á EES- samningnum um burðarplastpokanotkun. Þær kveða á um að árið 2025 eigi hver einstaklingur aðeins að nota 40 burðarplastpoka.Talið er að hver Íslendingur noti um 105 burðarplastpoka á ári en fyrir fjögurra manna fjölskyldu er það um 8 pokar á viku.

Starfshópur með fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum iðnaðar, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og umhverfis- og auðlindaráðuneytis skiluðu nýlega tillögunum.