Helmingur landsmanna vill halda reykjavíkurflugvelli í vatnsmýri

Samkvæmt nýrri könnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdu fyrir Fréttablaðið eru 52 prósent landsmanna andvígir því að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri. Tæp 28 prósent eru hlynntir flutningi hans en 20 prósent eru hvorki hlynntir né andvígir. Fréttablaðið greinir frá niðurstöðum könnunarinnar í dag.

Andstaða við flutning flugvallarins er mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og þá eykst andstaðan einnig með hærri aldri. Stuðningur við flutning eykst hins vegar með aukinni menntun og hærri tekjum.

Stuðningsmenn Miðflokksins, Framsóknarflokksins og Flokks fólksins setja sig langmest upp á móti flutningi flugvallarins, en andstaðan er yfir 80 prósent meðal stuðningsmanna þessara flokka. Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eru sömuleiðis andvígir flutningi flugvallarins, en 60 prósent þeirra vilja halda honum í Vatnsmýri á meðan 22 prósent þeirra eru hlynnt flutningi hans.

Mestur stuðningur við flutning flugvallarins er hjá stuðningsmönnum Samfylkingarinnar, þar sem 59 prósent eru hlynnt því að hann fari úr Vatnsmýri. Stuðningsmenn Viðreisnar og Vinstri grænna eru einnig frekar hlynntari því en andvígir að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri, án þess þó að ná meirihluta.

Þá eru Píratar nokkuð klofnir í afstöðu sinni, þar sem 33 prósent eru hlynnt því að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri og 35 prósent eru andvíg flutningi. Þriðjungur Pírata er svo hvorki hlynntur né andvígur flutningi flugvallarins.