Helgi: „málþóf á ekkert skylt við málfrelsi, ekki frekar en nauðgun við kynfrelsi.“

„Málþóf á ekkert skylt við málfrelsi, ekki frekar en nauðgun við kynfrelsi.“

Þetta sagði Helgi Bernódusson, fráfarandi skrifstofustjóri Alþingis, í ræðu sinni á Hátíð Jóns Sigurðssonar í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í gær. Þar velti hann fyrir sér framtíð Alþingis og sagði málþóf vera vera ósið sem þurfi að afnema sem allra fyrst. Fréttablaðið greinir frá.

Helgi, sem hefur gegnt starfi skrifstofustjóra frá árinu 2005 og starfað á Alþingi í 40 ár, sagði verkefni þingsins að treysta lífskjör fólksins í landinu og að takast á við vanda líðandi stundar.

Hann sagði málþóf vera eins og draug sem færi um þinghúsið og bætti við að það hafi stundum verið kallað vopn stjórnarandstöðunnar, en hann telur það reginmisskilning.

„Jafnvægið mun aðeins finna sér nýtt og heilbrigðara form, ef óhæfa þessi yrði lamin niður með einu bylmingshöggi, bótalaust. En jafnframt þarf að auka umræðu í þinginu, lifandi umræðu um mál sem ráðherrar og þingmenn taka almennt þátt í.“

Málþóf kallast það þegar þingmaður eða þingmenn reyna að hindra kosningu um frumvarp. Ein leið til þess er að draga umræður um frumvarpið á langinn með ræðuhöldum þangað til flytjendur frumvarps gefast upp á umræðunum og draga það til baka.