Helga er reykvíkingur ársins: „ég er alltaf að passa upp á að gleðja þau“

Helga Steffensen er Reykvíkingur ársins. Hún hefur rekið Brúðubílinn frá árinu 1980, þar sem hún hefur skemmt yngstu kynslóðinni með landsþekktum karakterum á við Lilla apa. RÚV.is greinir frá.

Eins og hefð hefur skapast fyrir hjá Reykvíkingi ársins renndi Helga fyrir fyrsta lax ársins í Elliðaánum í morgun. Það tók hana aðeins fimmtán mínútur að veiða 7-8 punda maríulax. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti um útnefninguna á staðnum og eftir að Helga hafði veitt sinn lax veiddi borgarstjórinn 80 sentimetra lax.

„Það er mjög flott og ég er mjög stolt. Mér finnst verulega ánægjulegt að vera Reykvíkingur ársins og veiða maríulaxinn eins og ekkert sé,“ sagði Helga í morgunfréttum Rásar 2 um útnefninguna og veiðiafrekið.

Aðspurð um hvað stæði upp úr eftir áratugalangt starf stóð ekki á svarinu: „Það eru börnin. Ég er með yngstu borgarana alveg frá því þau eru í vagni og í kerrum. Ég er alltaf að passa upp á að gleðja þau,“ sagði hún og bætti við að sumarið í ár hafi verið sérlega skemmtilegt, enda sól á hverjum degi.

Helga segist hafa haft gaman að veiðinni. „Ég er algjörlega óvön. Ég hef veitt í Elliðaárvatni, úr bát, kannski bleikju og urriða en að veiða lax var stórkostlegt. Ég skil alveg fólk sem byrjar í veiði og verður upptekið og „hooked“ á því.“

Reykvíkingur ársins var útnefndur í fyrsta sinn árið 2011. Tilgangurinn er að leita að einstaklingi sem hefur, með háttsemi sinni eða atferli, verið til fyrirmyndar á einhvern hátt og þakka fyrir þeirra framlag. Reykvíkingur ársins er útnefndur ár hvert.