Heimildarmyndir á dagskrá hringbrautar

Forráðamenn Hringbrautar hafa afráðið að sýna íslenskar heimildar- og fræðslumyndir í hverri viku - og til að byrja með verða þær á dagskrá klukkan 21:00 á fimmtudagskvöldum, áður en Þjóðbraut Lindu Blöndal hefur göngu sína að nýju í febrúar.

Ástæðan er einföld, að sögn Sigmundar Ernis Rúnarssonar, dagskrárstjóra Hringbrautar, en hann segir viðbrögð áhorfenda stöðvarinnar við sýningu alls kyns mynda af þessu tagi hafa farið langt fram úr vonum, enda sýni það sig í mælingum á áhorfi Hringbrautar að heimildarmyndir séu á meðal vinsælasta efnis stöðvarinnar.

Sjónvarpsstöðin hefur nú aflað sér mikils fjölda heimildar- og fræðslumynda til sýninga á næstu misserum, meðal annars frá kvikmyndafyrirtækinu Nýja bíói og kvikmyndagerðarmönnunum Hrafni Gunnlaugssyni, Pétri Steingrímssyni og Páli Steingrímssyni, auk þess sem myndir Hans Kristjáns Árnasonar um Íslendinga erlendis hafa verið til sýninga á stöðinni að undanförnu.

Frá og með miðjum febrúar verða téðar myndir í vikulegri sýningu á sunnudagskvöldum klukkan 21:00, en fram að því verða þær sýndar sem fyrr segir í hólfi Þjóðbrautar á fimmtudagskvöldum.