Heimilar veiðar á langreyði og hrefnu í fimm ár

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði í gær reglugerð sem heimilar áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu árin 2019–2023.

Í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að ákvörðunin byggist á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, en jafnframt hafði ráðherra hliðsjón af nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Við ákvörðun sína studdist ráðherra einnig við minnisblað frá Hafrannsóknastofnun, sem hann óskaði eftir í kjölfar skýrslu Hagfræðistofnunar. Fjöldi fólks hefur gagnrýnt skýrsluna harðlega og meðal annars hefur verið bent á að lítið tillit virðist hafa verið tekið til náttúruverndarsjónarmiða á kostnað hagfræðisjónarmiða.

Naumur meirihluti landsmanna andvígur hvalveiðum

Í nóvember síðastliðnum fengu dýra-, náttúru- og umhverfisverndarsamtökin Jarðarvinir Gallup til að gera könnun á afstöðu landsmanna til hvalveiða. Hún leiddi í ljós að 36 prósent af þeim sem tóku afstöðu voru andvígir hvalveiðum, 35 prósent voru hlynntir þeim og 29 prósent tóku ekki afstöðu. Samtökin höfðu látið Gallup gera sams konar könnun í maí á síðasta ári, en þá voru 30 prósent þeirra sem tóku afstöðu andvígir hvalveiðum, 40 prósent hlynntir þeim og 30 prósent tóku ekki afstöðu. Þannig virðist afstaða Íslendinga til hvalveiða hafa tekið nokkrum stakkaskiptum á um hálfs árs tímabili.

Ole Anton Bieltvedt, stofnandi Jarðarvina, segir um ákvörðun ríkisstjórnarinnar að þetta sé gert í þágu eins manns, „sem virðist haldinn hömlulausri þráhyggju – sumir myndu kalla það maníu – til hvalveiða,“ og vísar þar til Kristjáns Loftssonar forstjóra Hvals hf.

„Á sama tíma liggur fyrir, að rúmur helmingur landsmanna er á móti frekari langreyðaveiðum. Þetta hefði ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur getað kynnt sér, ef áhugi hefði verið á því. Á ekki vilji fólksins í landinu að ráða? Eða vegur vilji og fjármunir Kristjáns Loftssonar þyngra hjá stjórnarflokkunum en vilji meirihluta þjóðarinnar?“ spyr Ole Anton.

Hann líkir skoðanakönnuninni við niðurstöðu Brexit. „Þegar Bretar ákváðu að fara í Brexit, voru 37 prósent kjósenda þar með Brexit, 35% voru á móti og 28% kusu ekki. Þjóðarvilji Íslendinga gegn langreyðaveiðum er því svipaður og þjóðarvilji Breta til Brexits.“

Ole Anton veltir fyrir sér hver ráði í þessu landi. „Eru vinnubrögð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur lýðræðisleg og ábyrg? Hvað hefur forgang, þjóðarhagsmunir eða „veiðifirra“ eins manns?“

Ráðgjöf Hafró vegur þungt

Í tilkynningunni frá ráðuneytinu kemur fram að Hafrannsóknastofnun ráðleggur að árlegar veiðar á tímabilinu 2018–2025 verði að hámarki 161 langreyður á veiðisvæðinu Austur-Grænland/Vestur-Ísland og að hámarki 48 dýr á svæðinu Austur-Ísland/Færeyjar og 217 hrefnur á íslenska landgrunnssvæðinu.

Ráðgjöf sína byggir stofnunin á veiðistjórnunarlíkani vísindanefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (IWC), sem er eitt það varfærnasta sem þróað hefur verið fyrir nýtingu á nokkrum dýrastofni í heiminum.

Síðan hvalatalningar hófust 1987 hefur langreyði fjölgað jafnt og þétt við Ísland. Við síðustu talningu 2015 var fjöldinn á skilgreindu stofnsvæði (Mið-Norður-Atlantshaf) metinn um 37 þúsund dýr sem jafngildir um þreföldun frá 1987.

Hrefnu hefur fækkað mikið á grunnsævi við Ísland frá síðustu aldamótum. Ekki er þó talið að stofninn hafi minnkað heldur fremur að útbreiðslan hafi færst norður vegna minna fæðuframboðs hér á sumrin (síli og loðna). Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar tekur tillit til þessarar þróunar í útbreiðslu hrefnustofnsins.

Í fyrrgreindu minnisblaði Hafrannsóknastofnunar er vísað til þess að Náttúrufræðistofnun Íslands hefur nú í fyrsta sinn gefið út svæðisbundinn válista fyrir íslensk spendýr, þar sem beitt er sömu viðmiðum og á heimslista Alþjóðanáttúruverndarsjóðsins (IUCN). Þar flokkast langreyður sem „ekki í hættu“ sem staðfestir enn frekar gott ástand stofnsins hér við land, og það á einnig við um hrefnu, sandreyði og hnúfubak, auk smærri tannhvala.