Hafa aldrei stöðvað jafn ölvaðan ökumann áður

Tilkynnt var um rásandi aksturslag bifreiðar um hádegisbilið fyrr í vikunni og fylgdi tilkynningunni til lögreglunnar á Suðurnesjum skráningarnúmer ökutækisins. Skömmu síðar stöðvuðu lögreglumenn för bifreiðarinnar og höfðu tal af ökumanni. Að sögn lögreglunnar var strax ljóst að ökumaðurinn var alls ekki í standi til að aka bifreiðinni og segir lögreglan enn fremur að í raun hafi hann ekki verið í standi til að vera á fótum.

Var bílstjóri bifreiðarinnar handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur og var hann beðinn um að blása í áfengismæli. Sýndi sú mæling að áfengismagnið var 4.13 prómill, sem er umtalsvert meira en löglegt er. Vakthafandi lögreglumenn, sem nokkrir eiga tugi ára að baki í lögreglu, höfðu aldrei séð aðra eins tölu á áfengismælinum og vonast lögreglan til þess að sjá aldrei aftur svona háa tölu. Ökumaðurinn á von á langri ökuleyfissviptingu og hárri sekt.