Gunnar þór segir lögregluna brjóta á réttindum þeirra sem eru með króníska sjúkdóma: „það er veikt fólk í öllum stéttum“

Gunnar Þór Guðmundsson segist vera orðlaus fyrir hönd Guðrúnar Sólar dóttur sinnar og þeirrar höfnunar sem hún hefur þurft að upplifa af hendi lögreglunnar.

„Við erum með allskonar fólk innan lögreglunnar, menn sem hafa verið ákærðir fyrir misnotkun, við erum með alkóhólista, menn sem eru heimilisboxarar, grófir í ofbeldi. Það er veikt fólk í öllum stéttum þannig að mér finnst þetta vera brot á réttindum. Sérstaklega gagnvart ungri stúlku sem er í topp formi og hugsar um sig.“ Segir Gunnar Þór í samtali við Hringbraut.

Aðdragandinn að máli Guðrúnar er sá að hún hefur verið insúlínháða sykursýki í þrettán ár sem henni tókst ótrúlega vel að stjórna fyrir utan stutt tímabil á unglingsárunum. Í haust hóf Guðrún nám í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri en það hafði hana dreymt um lengi. Námið hefur gengið vonum framar en Guðrún hefur samhliða námi sínu starfað í 65% vinnu á hjúkrunarheimili.

„Í ágúst síðastliðinn sótti hún svo um að fara í þolpróf innan lögreglunnar til þess að reyna að komast inn í starfsnám hjá lögreglunni með náminu og þurfti hún að gangast undir læknisskoðun þar sem líkamlegt ástand hennar var skoðað og kom hún bara vel út og tók læknirinn hennar að sjálfsögðu fram að hún væri sykursjúk sem að við héldum að hefði ekki nein áhrif því jú hún getur gert nákvæmlega það sama og allir og tel ég að margir sykursjúklingar séu eflaust í betra jafnvægi heldur en „heilbrigðir” einstaklingar því jú við þurfum að passa okkur mun meira.“ Segir Gunnar.

\"\"

Guðrún ásamt móður sinni

Það kom því eins og þrumar úr heiðskíru lofti þegar Guðrún fékk niðurstöðurnar.

„Svo fékk hún þær leiðinlegu fréttir í fyrradag að það sé alveg útilokað að hún sem sykursjúkur einstaklingur geti starfað innan lögreglunnar sem hvorki ég né hennar nánustu bara skiljum! Mér finnst það bara rosalega dapurt, af því að ég þekki þetta nú sjálfur ég er búinn að vera með sykursýki í 35 ár og meðferðin í dag er allt önnur ég er til dæmis sjálfur með insúlín dælu.“

Gunnar segist ekki hafa fengið sykurfall né neitt slíkt í tíu þar í kjölfar þess að hann fékk dælu og þykir honum þessar niðurstöður því óskiljanlegar.

„Nú er ég 55 ára og hættur að starfa við mitt fag sem bakari vegna þess að heilsufarslega treysti ég mér ekki í það lengur.. og þá stígur maður bara til hliðar. Og hún þarf ekkert endalaust að vera í vettvangsstörfum. Hún getur verið í skrifstofustörfum og allskonar það er ýmislegt innan lögreglunnar. Þannig að mér finnst þetta vera rangt.“

Guðrún Sól niðurbrotin

Þá segir gunnar meðferðina við sykursýki vera orðin það góð að hægt sé að vera með skynjara á sér sem láta vita ef sykurinn fellur niður fyrir ákveðna prósentu. Þá sé auðvelt að grípa inn í.

„Og líka að það hefði þá átt að láta vita af þessu strax í upphafi. Ekki láta fólk fara í gegnum allskonar. Hún er búin að borga ekkert smá mikið af skólagjöldum fyrir þetta og nú getur hún ekki einu sinni haldið áfram í skólanum. Þannig að þetta er bara óréttlæti í sinni stærstu mynd og sinni víðtækustu mynd finnst mér .Við bara skiljum þetta ekki og langar okkur til þess að fá svör. Dóttir mín er alveg niðurbrotin því að mínu mati er verið að brjóta á réttindum hennar og þeirra sem eiga við króníska sjúkdóma að ræða. Hún er hörku dugleg, samviskusöm, heiðarleg og í mjög góðu líkamlegu formi.“