Guðni við þingsetningu: „ágreiningur einkennir öflugt þing, bann við honum er haldreipi hinna þröngsýnu“

150. löggjafarþing var sett á Alþingi í dag. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson setti þing að aflokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni og ávarpi sínu. Í ávarpinu kallaði hann eftir skoðanaskiptum þingmanna og sagði ágreining þeirra í millum vera af hinu góða.

Guðni sagði meðal annars við þingmenn: „Megi stórhugur ríkja hér. Megi ykkur auðnast að sýna sanngirni, háttvísi og lipurð í mannlegum samskiptum, virða ólíkar skoðanir og sjónarmið en standa líka fast á eigin sannfæringu og halda fram eigin málstað, í þjóðarþágu.“

„Þá verður eflaust tekist á í þessum sal. Það yrðu þó engin tíðindi, til þess er hann gerður. Ágreiningur einkennir öflugt þing og öflugt samfélag, bann við honum er haldreipi hinna þröngsýnu og kúgunartól harðstjóranna,“ bætti hann við.

Guðni sagði bjartsýni ríkja í öflugu samfélagi. „[E]kki biturð og beiskja, ólund eða ótti. Vissulega er alltaf svo margt sem þarf að gera betur og vissulega vitum við aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Áföll geta dunið yfir að óvörum, það þekkjum við Íslendingar af langri reynslu í návígi við náttúruöflin. Við verjum okkar hag og höldum áfram að láta rödd okkar heyrast á alþjóðavettvangi, rödd friðar og frelsis, framfara og jafnréttis.“

Ávarp Guðna í heild sinni er að finna hér:

„Ágætu alþingismenn! Ég býð ykkur velkomna til þings, óska ykkur velfarnaðar í vandasömum störfum. Megi stórhugur ríkja hér. Megi ykkur auðnast að sýna sanngirni, háttvísi og lipurð í mannlegum samskiptum, virða ólíkar skoðanir og sjónarmið en standa líka fast á eigin sannfæringu og halda fram eigin málstað, í þjóðarþágu.

Þá verður eflaust tekist á í þessum sal. Það yrðu þó engin tíðindi, til þess er hann gerður. Ágreiningur einkennir öflugt þing og öflugt samfélag, bann við honum er haldreipi hinna þröngsýnu og kúgunartól harðstjóranna.

Bjartsýni ríkir líka í öflugu samfélagi, ekki biturð og beiskja, ólund eða ótti. Vissulega er alltaf svo margt sem þarf að gera betur og vissulega vitum við aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Áföll geta dunið yfir að óvörum, það þekkjum við Íslendingar af langri reynslu í návígi við náttúruöflin. Við verjum okkar hag og höldum áfram að láta rödd okkar heyrast á alþjóðavettvangi, rödd friðar og frelsis, framfara og jafnréttis. En við stjórnum ekki gangi heimsmála, ákvarðanir ytra hafa ætíð haft áhrif hér og munu gera það áfram.

Óvissa er í raun annað orð yfir framtíð. Satt er það að varkárni er góðra gjalda verð. Við megum varast þá andvaralausu og þá kærulausu, það sanna dæmin. En við megum líka varast þá kvíðafullu, þá hræddu og þá reiðu. Þær stundir geta einmitt komið að við höfum ekkert að óttast nema þá óttaslegnu.

Ágætu alþingismenn, ágætu áheyrendur: Fyrr á þessari öld minntist Ingibjörg Haraldsdóttir á vægi vonar í hörðum heimi. Skáldið sagði:

„Síðan ég man eftir mér hefur heimurinn verið að farast. Ef það var ekki atómbomban var það heimsvaldastefnan, kommúnisminn, alnæmið, ofbeldið, kapítalisminn, klámið, mansalið, eiturlyfin, gróðurhúsaáhrifin, trúarbragðaofstækið, hernaðarhyggjan, náttúruhamfarirnar, 2 hryðjuverkaógnin, offitan, hungrið, vatnsleysið, fuglaflensan, endalok tungunnar, dauði ljóðsins ‒ svo ekki sé minnst á þá framtíðarsýn sem við blasir ef hvert kínverskt heimili eignast einhvern tíma bíl, ísskáp og þvottavél. ... alltaf vofði eitthvað yfir okkur, og vofir enn. Samt erum við hér ennþá og veröldin er ennþá fögur, farfuglarnir enn á sínu undarlega flugi og enn eru skáldin að yrkja og finna fyrir þeim „djúpa fögnuði“ sem sköpunartilfinningin vekur. Þrátt fyrir hatrið og stríðin, þrátt fyrir allt.“

Eru þetta ekki orð að sönnu? Eigum við ekki að vera bjartsýn þrátt fyrir allt, vera hugrökk? Og hugrekki, hvað er það í þessum sal, hvað er það á vettvangi þjóðmálanna? Það er í það minnsta ekki hugrekki ef fólk bugtar sig og beygir fyrir þeim sem hafa hæst, þeim sem láta formælingar fjúka í stað raka og skynsamra skoðanaskipta. Sómakært fólk má líka íhuga í hvaða félagskap það getur endað, hvernig hófstilltur og röggsamur málflutningur getur umhverfst í öfgar og útúrsnúning í meðförum annarra.

Og áður en fólk fer að fyrtast við og taka öll þessi orð til sín bið ég ykkur, kæru landsmenn og þingmenn, að minnast þeirrar speki sem finna má í þekktu lagi Carly Simon, þeirrar ágætu söngkonu: „Hættu þessum hégóma, að halda að sungið sé um þig.“

Já, lýðræðishefð er best varin með rökræðu og hlustun og endurmati, ekki með yfirgangi, þótta og skoðanahroka. En vandinn er bara þessi: Við búum ekki í veröld hinna einföldu lausna, hinna algildu sanninda. Við getum dáðst að Bjarti í Sumarhúsum, þrautseigju hans og frelsisleit. Um leið má samt setja út á þrákelkni hans og eigingirni, skapbresti sem leiddu hörmungar yfir aðra. Þetta er úr skáldskap en raunheimar geyma svipaðan lærdóm um margar hliðar einnar sögu. Við getum þannig dáðst að dugnaði okkar manna í þorskastríðunum en viðurkennt um leið að meira þurfti til að landa sigri, þróun hafréttar sem var okkur í vil og ekki skemmdi fyrir að skipta máli í átökum austurs og vesturs.

Nú virðast þeir tímar reyndar runnir upp að land okkar sé að margra mati í þjóðbraut á ný. Þá ríður á að greina milli varkárni og tortryggni, standa fast á sínu en óttast ekki umheiminn.

Ekkert er nýtt undir sólinni. Fátt tengir okkur betur öld af öld en Alþingi Íslendinga, stofnað á völlunum fögru árið 930, þungamiðja samfélagsins næstu aldir og aftur eftir heimastjórn, fullveldi og lokaáfangann árið 1944, þegar Ísland varð lýðveldi með þingbundinni stjórn eins og segir í fyrstu grein stjórnarskrárinnar, grundvelli okkar stjórnskipunar.

Ásgeir Ásgeirsson var annar forseti lýðveldisins, fyrstur sem valinn var í þjóðkjöri. Þegar hann setti þing í fyrsta sinn komst hann svo að orði:

„Á Alþingi heyr þjóðin sitt hagsmuna- og hugsjónastríð. Kosningar og flokkaskipting er sú borgun sem vér greiðum fyrir afnám hnefaréttarins. 3 Þarfirnar segja til sín um land allt og í öllum stéttum. Flokkar semja sér stefnuskrár og bræða þær saman í stjórnarsamvinnu. Svo kemur veruleikinn máski og takmarkar getuna. Það hendir jafnvel þingmenn, án þess að sé um að sakast, og ríkisstjórnir að þurfa stundum að gera fleira en gott þykir og annað en vonir stóðu til. En hvað sem því líður, þá er allt þetta framför og hámenning borið saman við það þegar höfðingjar kölluðu menn frá vinnu um hábjargræðistímann og fóru um héruð fylktu liði, drepandi, eyðandi og étandi upp búfé bænda á Sturlungaöld.“

Þetta þótti vel sagt árið 1952 og til orða Ásgeirs hefur verið vitnað síðan; það gerði forveri minn til dæmis við fyrstu þingsetningu sína í embætti forseta. Hér endurómar nefnilega eldri viska, varað er við því að gera fólk eða flokka á öndverðum meiði óðara að svörnum óvinum. Hér er líka bent á að þótt ágreining skuli þola, innan þings sem utan, og þótt afl atkvæða verði að lokum að ráða í þessum sal, þá eru málamiðlanir aðalsmerki öflugs þings og öflugs samfélags.

Sá er með öðrum orðum einn lærdómur Sturlungaaldar. Hann skulum við endilega hafa í huga í þessu landi, kynna hann áfram nýjum kynslóðum. Það gerði Þórarinn Eldjárn, sonur enn annars forseta, þegar hann færði ungmennum sögu Snorra Sturlusonar fyrir nokkrum árum, í styttri mynd. Stundum deildu þeir Snorri og Órækja sonur hans, skrifaði Þórarinn, og bætti svo við:

Þá sagði Snorri að Órækja væri ofstopamaður sem kallaði yfir þá vandræði. Órækja svaraði fullum hálsi og sagði að Snorri væri gunga.

- Semja, semja, semja, sagði Snorri þegar deilur komu upp.
- Lemja, lemja, lemja, svaraði Órækja.

Það verður að vísu að viðurkennast að Órækja lifði föður sinn og síðustu samningaviðræður Snorra fóru ekki eins og hann hefði kosið. En aftur: Svona er fortíðin flókin, hún veitir ekki einföld svör. Eins er samtíminn og sýnum því auðmýkt í okkar samskiptum. Enginn er fullkominn, öll erum við breysk, ágætu alþingismenn. Og ekkert okkar er stærra en það embætti sem fólkið í landinu hefur treyst okkur fyrir.

Ég ítreka óskir til þingmanna um velfarnað í löggjafarstörfum, landi og þjóð til heilla. Að svo mæltu bið ég ykkur að minnast fósturjarðarinnar með því að rísa úr sætum.

Hinn 2. september síðastliðinn var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar þriðjudaginn 10. september 2019.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni er hefst kl. 13:30.

Gjört á Bessastöðum 2. september 2019.

Guðni Th. Jóhannesson.

Katrín Jakobsdóttir.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 10. september 2019.“

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir að Alþingi Íslendinga er sett.“