Guðjón friðriksson svarar birni bjarnasyni

„Björn Bjarnason fv. ráðherra sakar mig um að dreifa óhróðri um Eyþór Arnalds, frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, á heimasíðu sinni. Hafa þau orð hans verið endurtekin á Eyjunni.is og í Fréttablaðinu í morgun. Hann segir m.a. að ávirðingar á Eyþór vegna gjaldþrots OZ og um rekstur Becromal séu rangar án þess að rökstyðja það.

Staðreyndin 

er sú að Becromal Iceland ehf á Akureyri var stofnað að frumkvæði Eyþórs Arnalds (sjá viðtal við hann í Frjálsri verslun 1.febr. 2015). Tap félagsins var milljarður króna árið 2015 og fimm milljarðar árið 2016. Skuldir félagsins voru þá 10,8 milljarðar og bókfært eigið fé neikvætt um 4,5 milljarða. Félagið er því í raun gjaldþrota.

Þá segir Björn að fullyrt sé án rökstuðnings að orkufyrirtæki sem ætlaði að virkja við Hagavatn hafi hagrætt „upplýsingum til að koma virkjuninni í nýtingarflokk“. Eyþór var stjórnarformaður svokallaðrar Hagavatnsvirkjunar og fullyrti hann og stjórn hans í umsókn sinni að yfirborð Hagavatns mundi hækka með virkjuninni og hefta þannig sandfok af uppþornuðum botni vatnsins og endurheimta gróðurþekju í grenndinni. Þessi fullyrðing var ekki studd neinum rannsóknum enda var henni mótmælt harðlega af vísindamönnum sem ógrunduðum og m.a. Ferðafélagi Íslands (sjá Morgunblaðið 17.febr. 2012, 4). Virkjunin komst því aldrei í nýtingarflokk.

Allir vita að Eyþór Arnalds var einn af eigendum gjaldþrotafyrirtækisins OZ og hann var einn af forsvarsmönnum búgarðabyggðar í Árborg. Svokallaður óhróður um Eyþór Arnalds er því ekki neinn óhróður heldur blákaldar staðreyndir sem kjósendur eiga rétt á að fá að vita um áður en þeir ganga að kjörborðinu í vor.

 

Nánar á dv.is;

 

http://www.dv.is/frettir/2018/04/12/gudjon-svarar-birni-bjarnasyni-vegna-asakana-um-lygar-blakaldar-stadreyndir-sem-kjosendur-eiga-rett-ad-fa-ad-vita-um/