Grunur um að bandarískt barn hafi smitast af e. coli í efstadal - tvö börn liggja enn á spítala

Sterkur grunur er fyrir þvi að bandarískt barn hafi smitast á Efstadal II af E.coli bakteríunni. Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, greindi frá þessu í Vikulokunum á Rás 1. Barnið hefur verið lagt inn á sjúkrahús í Bandaríkjunum og er nú verið að bíða eftir niðurstöðum sýna um hvort bakterían sé sú sama og börn hér á landi smituðust af. Það er þó staðfest að barnið hafi verið í Efstadal II.

Alls hafa verið staðfest 17 tilfelli þar sem börn hafa fengið E.coli og eiga þau það öll sameiginlegt að hafa farið í Efstadal II. Tvö börn liggja enn inn á Barnaspítala Hringsins og eru undir eftirliti lækna þar.  

„Þetta gæti hafa gerst í fram­leiðslu íss­ins eða fram­reiðslunni eða eft­ir að börn­in fá ís­inn,“ sagði Þórólfur á Rás 1. Sóttvarnarlæknir hefur staðfest að helmingur barnanna hafi ekki komist í snertingu við dýrin. Ísframleiðslan hefur nú verið stöðvuð í Efstadal II, en ísbúðin heldur þó áfram að selja ís frá öðrum framleiðanda. Allar sýkingar eru sagðar hafa komið upp fyrir 4. júlí og segir Þórólfur að komi upp sýkingar eftir það þurfi mögulega að grípa til alvarlegra aðgerða.

„Ef það fara að koma upp sýk­ing­ar sem væru eft­ir 4. júlí þá ætti hins veg­ar að skoða al­var­legri aðgerðir,“ sagði Þórólfur.