Gríðarlegur kostnaður við hlemm og braggann

Reykjavíkurborg ákvað fyrir nokkrum árum að ráðast í það að breyta Hlemmi í Mathöll. Hugmyndin þótti mörgum skemmtileg  og 107 milljónir króna áætlaðar í verkið.

Um þetta fjalla Staksteinar Morgunblaðsins föstudaginn 14.september og þar segir m.a.:

„Borgin sló samt til, en allmörgum hamarshöggum síðar hafði kostnaðurinn þrefaldast og var kominn í 308 milljónir króna. Í svari borgarinnar við fyrirspurn sjálfstæðismanna í borgarstjórn kom fram að unnið hefði verið „þrekvirki“ á Hlemmi. Það er hverju orði sannara“, stendur í Staksteinum.

Þar er einnig athyglinni beint bragga í Nauthólsvík sem er orðinn flottur veitingastaður.

„Í Nauthólsvík er gamall braggi og fyrir tveimur árum ákvað borgin að gera hann upp fyrir 41 milljón króna. Ýmsum þótti vel í lagt, en metnaður borgarinnar fyrir hönd braggans óx þó hratt og gerð var kostnaðaráætlun sem hljóðaði upp á 158 milljónir króna. Hamrarnir fóru á loft eins og á Hlemmi og fyrr en varði var kostnaðurinn kominn í litlar 415 milljónir króna“, stendur enn fremur í pistlinum.