Göt á lungum einungis fyrstu vísbendingar um heilsufarsvá rafrettna – lítið vitað um langtímaáhrif

Krabbameinsfélagið hefur miklar áhyggjur af vaxandi notkun unglinga og ungs fólks á rafrettum. Algengt sé að fólk telji þær meinlausar og skýli sér bak við þá fullyrðingu að rafrettur séu skárri kostur en sígarettur. Þetta segir Sigrún Elva Einarsdóttir, sérfræðingur í forvörnum hjá Krabbameinsfélagi Íslands, í samtali við Morgunblaðið í dag.

Hún segir nýlegar fréttir af því að fimm einstaklingar hafi þurft að leita á Landspítalann á árinu með gat á lunga eftir rafrettureykingar gefi vísbendingu um hversu neikvæð áhrif rafrettur geti haft á heilsuna.

„Við erum ansi hrædd um að þetta séu bara fyrstu punktarnir sem séu að fara að beina ljósi að því hversu mikil heilsufarsvá þetta er,“ segir Sigrún og bætir við að það sé mikið áhyggjuefni hversu margt ungt fólk, sem hefði líklega aldrei byrjað að reykja án tilkomu rafrettna, sé byrjað að „veipa“.

Hún bendir á að lítið sé vitað um langtímaáhrif rafrettureykinga og því sé ekkert hægt að fullyrða um skaðleysi þeirra. Fólk sem tali máli rafrettna eigi það til að hengja sig á það að rafretturnar séu ekki krabbameinsvaldandi.

Sigrún segir þó að það geti vel verið að það séu einhverjar krabbameinslíkur sem fylgi því að reykja rafrettur. „Við erum dauðhrædd við þau neikvæðu áhrif á heilsuna sem þessi vara getur haft og er líkleg til að hafa.“

Að lokum segir hún að sú staðreynd að í rafrettunum sé nikótín ætti að nægja til þess að hringja viðvörunarbjöllum. „Notkun þessara vara ætti að einskorðast við það fólk sem vill hætta að reykja sígarettur og vill nýta sér þær sem hjálpartæki til þess.“

Fjöldi fólks heldur áfram að reykja samhliða

Í lok febrúar ræddi Karl Andersen, stjórnarformaður Hjartaverndar og prófessor í hjartalæknisfræði við læknadeild HÍ, við Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut um ný lög um rafrettur sem tóku gildi 1. mars síðastliðinn. Karl sagði þar Hjartavernd fagna lögunum.

„Það er löngu tímabært að setja ramma utan um notkun á þessari vöru, rafrettum. Það hefur verið þannig hingað til að þetta hefur verið selt í raun og veru ólöglega, vegna þess að nikotín í þessum vökva er skilgreint sem lyf skv. íslenskum lögum. Til þess að selja lyf þarf maður lyfsöluleyfi og það hefur ekki verið fyrir þetta,“ útskýrði hann.

Markmið laganna er að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks. Fjölmargar umsagnir bárust um frumvarpið á sínum tíma, m.a. frá Hjartavernd og Félagi atvinnurekenda. Í  umsögn FA sagði að lýðheilsurök séu fyrir því að notkun rafsígarettna afstýri reykingum og heilsutjóni, líkt og Sigrún minntist á í Morgunblaðinu í dag.

„Það eru margir sem hafa notað rafrettur til þess að hætta að reykja og mörgum hefur tekist það og það er hið besta mál,“ sagði Karl. „Hins vegar vitum við að u.þ.b. helmingurinn af þeim sem nota rafrettur til þess að hætta að reykja halda áfram að reykja samhliða, það eru til tölur um það.“

Hann bætti við að ekki sé búið að sanna það með óyggjandi hætti að rafrettur dragi úr heilsutjóni, til þess þurfi um 20 ár til viðbótar til að meta hvaða áhrif þær hafi á reykingar og heilsufar. „Það er vissulega líklegt og mjög sennilegt að rafrettur séu miklu minna skaðlegar heldur en tóbaksreykur enda er þessi samanburður þannig að það er ekki til neitt í heiminum sem er eins skaðlegt og reyk tóbak. Það deyja u.þ.b. 6,5 milljón manna á ári úr tóbaksreykingum í heiminum. Það er ekki hægt að finna neysluvöru sem er seld opið sem veldur eins miklum skaða og tóbak.“

Lögin um rafrettur eru liður í tilskipun frá Evrópusambandinu en Ísland gekk þó nokkru lengra með svokölluðu sýnileikabanni. Karl sagði Hjartavernd hafa áhyggjur af börnum og unglingum enda um lokkandi vörur að ræða. Hjartavernd mælti því með sýnileikabanni til að reyna að stemma stigu við því að rafrettur verði tískuvara. Börn og ungmenni eigi enda alltaf að fá að njóta vafans þar sem við vitum ekki nógu mikið ennþá um mögulega skaðsemi rafrettna.

Viðtalið við Karl má finna í heild sinni hér: