Gagnrýnir íslensk fyrirtæki fyrir ofnotkun ensku

Guðrún Kvaran, prófessor emeritus í íslensku við Háskóla Íslands og formaður Íslenskrar málnefndar, er gestur Björns Jóns Bragasonar í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræðir hún íslensk mannanöfn og íslenska málstefnu.

Hún segir tungumálið vera í töluverðri hættu og furðar sig á því að íslensk fyrirtæki séu í auknum mæli að breyta nöfnum sínum í ensk, t.a.m. Flugfélag Íslands sem breytti nafni sínu í Air Iceland Connect. „Við [Íslensk málnefnd] höfum gert athugasemdir við þetta fyrirtæki og fengum bréf til baka sem mér fannst nú ekki mjög sannfærandi,“ segir Guðrún.

Guðrún segir nefndina hafa sett sig í samband við fleiri fyrirtæki og telur mörg þeirra notast við ensku á kostnað íslensku vegna gróðasjónarmiða. „Við höfum gert athugasemdir við Isavia vegna skilta á Keflavíkurflugvelli. Það er eins og menn geri allt til þess að grípa og græða á útlendingum,“ segir Guðrún.

Á flugvöllum hvarvetna í heiminum kemur heimamálið fyrst á skiltum, svo enska eða annað tungumál. Aðspurð um af hverju það sé einungis stuðst við ensku á skiltunum á Keflavíkurflugvelli segir Guðrún: „Þetta er svo alþjóðlegur flugvöllur. Ég er ekki að segja að hann sé alþjóðlegur en það er svarið sem ég fæ. Ég get sagt þér að ég ætlaði að kaupa mér pylsu á Keflavíkurflugvelli og geng að stað þar sem eru seldar pylsur. Og ég segi: „Eina pylsu takk.“ Maður, svona kannski um fimmtugt, hvæsir á mig og segir á ensku: „Þetta er alþjóðlegur flugvöllur og tungumálið hér er enska.“ Og ég svaraði þá á íslensku og sagði: „Étt‘ana sjálfur“ og fór.“

Hún telur að margir af þeim ferðamönnum sem koma hingað til lands vilji sjá íslensku og skilji meira í málinu en fólk telur almennt. „Útlendingar vilja geta séð íslensku en þeir sjá hana ekki. Þeir geta farið niður allan Laugaveginn og þú tæplega sérð nokkurn einasta matseðil með íslenskum heitum. Þetta vilja ekki útlendingar. Margir eru frá Norðurlöndum eða frá Þýskalandi og það eru sömu stofnar í mjög mörgum orðum. Svo má hafa erlent mál með en það má ekki sleppa íslenska málinu. Mér finnst alveg til fyrirmyndar á Skólavörðustígnum, þar er verslun Kormáks og Skjaldar, og þeir eru með skilti fyrir utan með íslenskum nöfnum á fatnaði, skyrta, jakki, buxur, og hvað það heitir á ensku,“ segir Guðrún.

Nánar er rætt við Guðrúnu í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.