Gagnagrunnur um þróun lífskjara opnaður

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði vefinn tekjusagan.is á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag. Á vefnum er veittur aðgangur að gagnagrunni um lífskjör landsmanna. Gagnagrunnurinn byggir á ópersónugreinanlegum upplýsingum úr skattframtölum allra einstaklinga á Íslandi frá árinu 1991 til 2017. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Á vefnum er hægt að skoða þróun ráðstöfunartekna mismunandi hópa, áhrif skatta og bóta auk félagslegs hreyfanleika. Vefnum er ætlað að auka gagnsæi og gagnast bæði stjórnvöldum og almenningi. Á vefnum sé hægt að finna raungögn sem er hægt að byggja umræðu um lífskjaraþróun á.

„Það er þörf á áreiðanlegum og óumdeildum gagnagrunni með launatölfræði sem allir hafa aðgang að til að hægt sé að leggja mat á launaþróun auk áhrifa skatta og bóta með óumdeildum og áreiðanlegum hætti. Ég tel að með Tekjusögunni séum við komin með styrkan grundvöll undir umræður um kjaramál,“ segir Katrín.

„Það er lykilatriði fyrir stjórnvöld að hafa aðgang að áreiðanlegum upplýsingum þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku. Tekjusagan gerir okkur kleift að sjá hvernig lífskjör mismunandi hópa hafa þróast, hvaða hópum hefur vegnað vel og hvaða hópar þurfa sérstaka athygli,“ segir Katrín einnig.

„Þessi vinna er, eftir því sem við komumst næst, einstök á evrópska vísu. Aldrei áður hefur verið farið í jafn yfirgripsmikla og ýtarlega gagnasöfnun og rannsókn á lífskjaraþróun á Íslandi. Það er ánægjulegt að sjá að okkur hefur miðað áfram og að allir hafa það betra þótt, eins og fram kom í máli forsætisráðherra, módelið sýni okkur hópa sem hafa ekki notið eins mikils vaxtar og við vildum. Það gefur okkur um leið tækifæri til að bregðast við því með markvissum aðgerðum,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

„Gögn og gagnasöfnun eru mikilvægur þáttur í samfélaginu í dag. Þetta verkefni gerir okkur kleift að tala um staðreyndir á nýjan og gagnsæjan hátt. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem fást í Tekjusögunni getum við mótað stefnu á markvissari hátt en áður. Það vekur sérstaka athygli mína að sjá staðfestingu á því að félagslegur hreyfanleiki sé einstaklega mikill á Íslandi. Það segir mér að við búum í landi tækifæranna,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.