Fyrsta klúður katrínar jakobsdóttur

Fyrsta klandur Katrínar Jakobsdóttur á stóli forsætisráðherra var til umfjöllunar í Ritstjórunum í gærkvöld, en sessunautar Sigmundar Ernis að þessu sinni, þeir Kristjón Kormákur Guðjónsson, ritstjóri DV og Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar eru sammála um að hún hafi þar misstigið sig.

Kristjón segir Katrínu einfaldlega ekki hafa komið hreint fram í Nató-málinu, þar hafi hún fremur kosið að tala til heimbrúks í eigin flokki með því að segja að íslensk stjórnvöld hafi ekki stutt sérstaklega árás Breta, Frakka og Bandaríkjamanna á meinta efnavopnaverksmiðju í Sýrlandi á dögunum - og hún eigi fremurr að kenna sjálfri sér um klúðrið fremur en að skamma aðra fyrir að snúa út úr fyrir sér; hún hafi einmitt sjálf verið með útúrsnúninga. Jón Trausti tekur undir með kollega sínum, málatilbúnaður forsætisráðherra hafi í besta falli verið klaufalegur, en hann sýni líka hvað málið sé erfitt fyrir flokkinn og tjóni að einhverju leyti ímynd hans.

Þeir eru báðir hissa á því að Sjálfstæðisflokkurinn mælist ekki hærri í borginni og telja einsýnt að meirihlutinn haldi með Viðreisn innan hans í stað Bjartrar framtíðar; sá flokkur sem líklega eigi meira inni en mælingar sýni sé Miðflokkurinn, þar gildi sama lögmálið og hjá Framsókn fyrir síðustu kosningar þegar sá flokkur tók upp moskumálið, menn vilji ekki endilega flíka stuðningi sínum við Vigdísi Hauksdóttur, en geri það fremur í laumi.

Ákvörðun SÁÁ að loka bangsadeildinni fyrir ungmenni kemur til tals, svo og fyrirhugaðar hvalveiðar, auk þess sem rætt er um úttekt Stundarinnar á smálánakóngum landsins og umfjöllun DV um eltihrella sem svífast einskis í ógeðslegum níðingsskap sínum.  

Ritstjórarnir eru frumsýndir öll þriðjudagskvöld klukkan 21:00 og endursýndir í dag, en einnig aðgngilegir á hringbraut.is undir sjónvarp.