Fylgiskannanir mjög misjafnar

Hvers virði eru fylgiskannanir og hversu áreiðanlegur mælikvarði eru þær á fylgi flokkanna? Þetta er sígild spurning en fylgiskannanir eiga það til að sýna mjög ólíkar niðurstöður.

Sverrir Agnarsson, sjálfstætt starfandi ráðgjafi í markaðs – og kynningarmálum ræðir þetta á Þjóðbraut í kvöld. Hann segir eitt af aðalatriðunum sé að skoða á hvaða tímapunkti kannanir eru gerðar og ekki bera saman kannanir sem gerðar eru með ólíkum hætti.

Sverrir sem um árabil var umsjónarmaður markaðs og fjölmiðlarannsókna hjá 365 Miðlum, segir að Fréttablaðið sé það eina sem hafi gert kannanir eins og DV áður fyrr, með því að hringja í úrtakið á tveggja daga tímabili. Varast ber að bera saman kannanir þar sem ólíkar aðferðir eru notaðar. Önnur þekkt og algengasta aðferðin sem er notuð er svokallaðir „netpanelar“, þar eru úrtök notuð sem hafa lengri tíma en bara eitt símtal til að svara spurningum. Þannig aðferðir nota t.d. MMR og Gallup.

Sverrir segir að kannanir á Íslandi hafi verulega gott forspárgildi um úrslit kosninga og svarhlutfall sé oftast ásættanlegt. Undantekningin um forspána hafi verið forsetakosningarnar síðustu en þá virðist skýringin vera að viðhorf fólks hafi verið á slíkri fleygiferð að mælingar urðu ónákvæmar.

Þjóðarpúls Gallup segir Sverrir að sé sér á parti og eigi engan vegin við að bera hann saman við aðrar kannanir. Þær mæla frekar „trend“, segir Sverrir eða almenna viðhorfsbreytingu fólks í átt að tilteknum flokki eða málefni.  

Nýlega var svona mikill munur á fylgismælingum:

Ný skoðanakönnun 365 slær allt annan takt en nýjustu kannanir MMR og Gallup. Svo dæmis sé tekið mælir 365 fylgi Sjálfstæðisflokksins 34,6 prósent sem er mun meira meira fylgi en MMR mældi fylgi flokksins í könnun sem birt var í fyrrdag.

Þá segir könnun 365 Viðreisn mælast með 7,3 prósent, en MMR 12,3 og Gallup 12,2 prósent.

Fylgi Samfylkingarinnar mælist einungis 5,9 prósent hjá 365, en 8,8 hjá Gallup og 9,3 hjá MMR.