Frú vigdís verndari barnaþings

Í nóvember á þrjátíu ára afmæli Barnasáttmálans – samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins – verður haldið í Hörpu fyrsta sinn þing um málefni barna eða barnaþing. Frú Vigdís Finnbogadóttir hefur samþykkt að vera sérstakur verndari þingsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umboðsmanni barna. Þar segir einnig:

 Embætti umboðsmanns barna skipuleggur barnaþingið en í breytingum sem gerðar voru á lögum um embættið á síðasta ári var ákveðið að halda skyldi barnaþing annað hvert ár með þátttöku barna sem og alþingismanna, fulltrúa stofnana ríkis og sveitarfélaga, fulltrúa frá aðilum vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka. Auk formlegrar opnunar skiptist barnaþingið í tvennt: Annars vegar verður haldinn fundur í þjóðfundarstíl þar sem börn og fullorðnir eiga samræðu um málefni sem brenna á börnum. Niðurstöður þingsins verða kynntar ríkisstjórn og hlutaðeigandi ráðherrum og er ætlað að vera mikilvægt framlag í stefnumótun um málefni barna. Hins vegar verður opin dagskrá með fundum og málstofum um málefni sem tengjast börnum auk þess sem barnamenningu verður gerð skil.

„Það er sérstakur heiður að Vigdís skuli hafa tekið að sér vera verndari þingsins því hún hefur ætíð hlúð sérstaklega að málefnum barna en ekki síður verndun umhverfisins en í loftlagsbaráttunni hafa börn skipað sér í framvarðarsveit. Gera má ráð fyrir að öll þessi málefni verða í brennidepli á barnaþinginu.“