Fólk láti ekki þagga niður í sér

Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir að flokk­ur­inn hafi með uppstillingu í Reykjavík tekið áhættu á því að höfða til þrengri hóps en annars hefði orðið. Hún vonar að nýjir framjóðendur flokksins láti ekki þagga niður í sér eins og hún upplifði sjálf. 

Í viðtali við vikuritið Mannlíf segir Áslaug að innanflokksátök innan Sjálfstæðisflokksins í borginni hafa bitnað á starfi borgarfulltrúanna. Það hafi verið mikill áhugi hjá sumum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins fyrir stefnumálum sem meirihlutinn vann að, eins og þéttingu byggðar og hún og fleiri verið jákvæð gagnvart því að skoða borgarlínuna. Hún segir að nú taki flokk­ur­inn þá áhættu að höfða til þrengri hóps en hann hefði ann­ars gert. Hún sé ekki sú eina í flokknum sem sé á þess­ari mál­efna­línu og veit að meðal nýrra fram­bjóð­enda sé fólk sem sé sam­mála sér um margt. „Ég vona að þeir fram­bjóð­endur fylgi sann­fær­ingu sinni og láti ekki þagga niður í sér\", segir Áslaug í viðtalinu og að skortur á umburð­ar­lyndi innan flokksins muni ekki stækka heldur þvert á móti minnka flokk­inn í Reykja­vík.

„Frelsi til að velja er ein aðal­á­hersla flokks­ins. Í sveit­ar­stjórnum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu er í for­ystu fram­bæri­legt sjálf­stæð­is­fólk sem er að vinna á mjög svip­uðum nótum og við vorum að gera í borg­inni hjá flokknum fyrir nokkrum árum. Þessar sveit­ar­stjórnir sem hafa Sjálf­stæð­is­menn í broddi fylk­ingar eru að vinna með meiri­hlut­anum í Reykja­vík þegar kemur að Borg­ar­lín­u”, segir Áslaug.

Hún leynir því ekki að hún hafi orðið fyrir vonbrigðum með þau vinnubrögð sem áttu sér stað við uppstillingu listans en Áslaug sóttist eins og þekkt er eftir oddvitasætinu eða öðru sæti. Uppstillingarnefnd hafnaði henni hins vegar. „Ég veit það fyrir víst að það eru margir sem hafa unnið ötullega fyrir borgina og í borgarmálunum innan flokksins og höfðu mikinn áhuga á að fara í prófkjör, þeim fannst súrt að heyra að nöfn þeirra hlutu engan hljómgrunn hjá kjörnefndinni\", segir Áslaug.

„Svona vinnubrögð skilja eftir sig djúp sárindi og um leið er hætt við að það verði ekki eins mikil stemning í kosningaslagnum í vor\"

 

Viðtalið við Áslaugu í heild er hér.