Gunga, drusla, skítlegt eðli og helvítis dóni: sjáðu hvað þau hafa sagt á þingi: myndbönd

Á Alþingi er algengt að þingmenn takist á. Þrátt fyrir að fólki verði stundum heitt í hamsi gæta þingmenn þess oftast að sýna hverju öðru virðingu og grípa ekki til fúkyrða í umræðum á þinginu. Stundum tekst það þó ekki alveg. Það hefur verið mikil spenna á þinginu síðustu daga og ýmis orð verið látin falla. Hringbraut hefur því tekið saman nokkur fleyg ummæli sem þingmenn hafa látið falla í pontu í gegnum árin og fylgja myndskeið sumum þeirra:

Skítlegt eðli

\"\"

Ein frægustu ummælin eru þau sem Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, hafði uppi um Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, þann 13. febrúar 1992:

„Ég hélt satt að segja ekki, og vona að mér fyrirgefist að ég segi það, að svona skítlegt eðli væri inni í hæstvirtum forsætisráðherra, en það kom greinilega hér fram.“

Ummælin lét hann falla í fyrirspurnartíma þegar rætt var um greiðslur fjármálaráðuneytisins vegna auglýsinga.

Gunga og drusla

\"\"

Mynd: Fréttablaðið/GVA

Þann 14. maí 2004, í umræðu um fjölmiðlafrumvarp, lét Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi formaður Vinstri grænna, ekki síður fræg orð falla um Davíð Oddsson, sem þá var enn forsætisráðherra. Steingrímur óskaði eftir því að Davíð kæmi í þingsal þar sem hann þyrfti að spyrja forsætisráðherra út í frumvarpið. Ekkert bólaði á Davíð og brást Steingrímur illa við:

„Ég hlýt að líta svo á, herra forseti, af því að hæstvirtur forsætisráðherra getur ekki haft nein lögmæt forföll - bráðfrískur maðurinn á vappi hérna í kringum salinn áðan - hann getur ekki haft nein önnur forföll, nein lögmæt forföll, ég hlýt að líta svo á að hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig. Ég hlýt að líta svo á og það skal þá standa að Davíð Oddsson sé slík gunga og drusla að hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig.“

Afturhaldskommatittsflokkur

\"\"

Davíð var ekki einungis viðtakandi fúkyrða í sinn garð í forsætisráðherratíð sinni og lét til að mynda Samfylkinguna heyra það þann 28. nóvember 2004:

„En Samfylkingin er eins og gamall afturhaldskommatittsflokkur og ætlar sér aldrei að verða stór og getur því ekki stutt verðugt verkefni eins og þetta.“

Þetta verðuga verkefni sem Davíð vísaði til var stuðningur íslensku ríkisstjórnarinnar við innrás Bandaríkjanna í Írak.

Mannréttindaníðingur, skítlegt eðli og pólitískar druslur

Þann 29. maí 2008 fór Grétar Mar Jónsson, þáverandi þingmaður Frjálslynda flokksins mikinn í pontu og kallaði Einar K. Guðfinnsson, þáverandi sjávavarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mannréttindaníðing:

„Herra forseti. Ég sé ekki betur en að verið sé að niðurlægja Alþingi. Hér kemur hæstvirtur sjávarútvegsráðherra — í rauninni er ekki hægt að kalla hann háttvirtan eða hæstvirtan vegna þess að hann er að lítilsvirða Alþingi — og segir okkur að hann ætli ekkert að gera í málinu. Hann ætlar að hunsa álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, hann ætlar áfram að brjóta mannréttindi, hann ætlar að vera mannréttindaníðingur. Maður er svo sem ekkert hissa á því þó að Sjálfstæðismenn vilji vera það, þeir hafa verið það.“

Grétar Mar var hvergi nærri hættur og gaf þáverandi ríkisstjórn tóninn: „Það er sorglegt að þurfa að horfa upp á íslenska stjórnmálamenn haga sér eins og þeir gera hér, auðvitað ættu þeir að segja af sér strax. Það er skýlaus krafa að þessi ríkisstjórn segi af sér af því að hún treystir sér ekki til að virða mannréttindi íslenskra þegna. Þetta er skítlegt eðli, það eru pólitískar druslur sem haga sér svona.“

 \"\"

Grétar Mar Jónsson

Hann lét ummælin falla í umræðu um viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Vafninga-Bjarni

\"\"

Þór Saari, þáverandi formaður þingflokks Hreyfingarinnar, lét Bjarna Benediktsson heyra það þann 21. febrúar 2012 í umræðu um meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga:

„Það að formaður Sjálfstæðisflokksins, sjálfur Vafninga-Bjarni eins og hann er almennt kallaður, skuli leyfa sér að kasta rýrð á þingmenn vegna þess að þeir styðja hér þingmál er náttúrulega hneisa, en er kannski ekkert óeðlilegt miðað við það umhverfi sem hann kemur úr og þá tugi ef ekki hundruð milljarða sem hafa tapast á aðkomu hans og samkrulli sem stjórnmálamanns við viðskiptalíf í landinu.“

Margt sem augað nemur ekki

Þann 11. desember 2013 virtist Vigdís Hauksdóttir, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, gera lítið úr Helga Hjörvari, þáverandi þingmanni Samfylkingarinnar, þegar hún sagði: „En það er, virðulegi forseti, margt sem augað nemur ekki.“

\"\"

Mynd: Mbl.is/Ómar Óskarsson

Helgi er sem kunnugt er blindur, og hafði kallað eftir því að meirihluti fjárlaganefndar væri viðstaddur í þingsal til að ræða um fjáraukalögin. Vigdís var þó sannarlega í salnum og gekk til að mynda framhjá ræðupúltinu þegar Helgi flutti ræðu sína. Benti hún á það og lét svo ofangreind ummæli falla.

Helvítis dóni

\"\"

Mynd: Vísir/GVA

Þann 26. febrúar 2014 kallaði Katrín Júlíusdóttir, þáverandi varaformaður Samfylkingarinnar, Bjarna Benediktsson, þáverandi og núverandi fjármálaráðherra, „helvítis dóna.“ Ástæðan var sú að í miðri ræðu Katrínar í umræðu um fundarstjórn gekk Bjarni að henni og lagði blað í ræðupúlt. Katrín var ekki sátt við það og sagði að Bjarni ætti ekkert með að henda í sig pappírum þegar hún hefði orðið. Bað Bjarni hana þá um að „róa sig.“ Er Katrín gekk úr pontu lét hún svo orðin falla.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar, tók því næst til máls og var augljóst að henni hafi þótt beiðni Bjarna um að Katrín skyldi róa sig vera ansi yfirlætisfull og sakaði Bjarna um kvenfyrirlitningu.

Gjammandi friðarspilli sagt að þegja

Steingrímur J. Sigfússon hefur ekki sagt sitt síðasta í þessari samantekt. Þann 13. maí 2014 fór fram umræða vegna leiðréttinga verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar ræddi Steingrímur hvernig hann og hans kynslóð hafi brugðist og að nú ætti að senda reikninginn inn í framtíðina. Í miðri ræðu hans kallaði Vigdís Hauksdóttir, þáverandi þingmaður Framsóknarflokksins: „Landsbankabréfið!“ Steingrímur brást illa við þessu framíkalli:

„Þegiðu, háttvirtur þingmaður Vigdís Hauksdóttir. Nú ætla ég að leyfa mér að segja þetta, forseti, það er nóg komið að hafa þennan leiðinda friðarspilli gjammandi þarna endalaust. Það er aldrei hægt að tala á alvarlegum nótum um nokkurn skapaðan hlut.“

\"\"

Vísir greindi frá því að Einar K. Guðfinnsson, þáverandi forseti Alþingis, hafi gripið inn í með bjöllu sinni og sagt við Steingrím: „Ég ætla engu að síður að biðja háttvirtan þingmann að gæta orða sinna.“

Steingrímur var ekki alveg sáttur við þessa aðfinnslu Einars og sagði: „Forseti ætti þá kannski ekki að sofa þarna og líða það að ræðumenn séu truflaðir með þessum hætti.“ Einar svaraði því að hann væri að fylgjast vel með gangi mála.

Þurfum fokking tíma

Þann 1. júní 2017 missti Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, stjórn á skapi sínu í umræðum um tillögur Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um skipan dómara við Landsrétt.

\"\"

Vísir greindi frá því að Jón Þór hafi í ræðu sinni sagst vera ósáttur við það hvernig að málinu hefði verið staðið í nefndinni um skipanirnar og kallaði eftir meiri tíma til þess að vinna úr tillögunni. Í miðri ræðunni heyrðust hlátrasköll úr þingsalnum og brást Jón Þór illa við því og hrópaði:

„Þingmaðurinn hlær. Menn verða að átta sig á því að á þetta þing veljast almennir borgarar sem eru ekki allir lögmenn og við þurfum fokking tíma til þess að geta unnið þetta mál.“

Jón Þór baðst strax afsökunar á orðum sínum eftir að forseti Alþingis hafði slegið í bjöllu sína og sagðist hafa misst orðið út úr sér. Þrátt fyrir það hélt hann áfram að hrópa og barði í borð.