Flestir lepja upp meltuna hráa úr guðna og styrmi

„Orkupakkaræfillinn eignast stuðningsmann.“ Þetta er titill á pistli eftir Össur Skarphéðinsson fyrrverandi ráðherra sem birtur er á Hringbraut. Þar fjallar Össur um þriðja orkupakkann og Pál Magnússon þingmann Sjálfstæðisflokksins. Páll lýsti því nýverið yfir að öllum efasemdum hans um orkupakkann hefði verið mætt. Össur segir:

„Páll Magnússon er af rokksólid eðalkrötum kominn - en villtist á aðra jötu. Þann dreng má lengi gráta. Hann er kjarkmaður. Tók þátt í uppreisninni gegn Elliða í Vestmannaeyjum sem fleytti Írisi Róbertsdóttur í hásæti Eyjamanna. Hann stóð uppi í hárinu gegn ritstjóra Morgunblaðsins og það þora ekki margir íhaldsmenn.“

Þá segir Össur að það þurfi kjark til að skipta um skoðun í stórum málum.  

„Það hefur komið fyrir mig - en því miður ekki oft. Páll er einn af fáum upphaflegu andstæðingum orkupakkaræfilsins sem hefur haft kjark, og vitsmuni, til að skoða rökin með og á móti. Flestir lepja bara upp meltuna hráa úr Guðna Ágústssyni og Styrmi Gunnarssyni.“

Össur hrósar svo Páli fyrir að sjá villu síns vegar og skipta um skoðun.  

„Hvort hann fær “eilíft hús á himnum” einsog nafni hans postulinn lofaði sanntrúuðum í síðara bréfi sínu til Kórintumanna er óvíst. Alla vega á þó þingmaðurinn virðingu skilda fyrir að hafa skipt um skoðun. Það er ekki auðvelt í því úlfagreni sem eru hans “jarðnesku tjaldbúðir” einsog postulinn orðaði það löngu fyrir daga Sjálfstæðisflokksins“.