Fjölbreytni er prýði samfélagsins

Sigmundur Ernir, dagskrárstjóri Hringbrautar skrifar:

Fjölbreytni er prýði samfélagsins

Eftir að hafa lifað og hrærst í íslensku samfélagi í meira en hálfa öld hefur sá sem hér fer fingrum um lyklaborðið komist að niðurstöðu, kannski ekki þeirri merkilegustu í sögu mannshugans, en altént nógu stórri fyrir eigin koll. Hún er þessi; fjölbreytni skiptir íslenskt samfélag mestu máli - og þetta á raunar við um öll svið þess, meira og minna, af því einsleitni dregur öðru fremur máttinn úr mannlegum samskiptum, fækkar tækifærum, minnkar nýsköpun, skapar ójöfnuð og einangrar samfélagið.

Fjölbreytni hefur bætt og lagað íslenskt samfélag á síðustu áratugum. Fjölbreytni hefur opnað þjóðfélagið og sýnt okkur sannari mynd þess. Fjölbreytni hefur fært okkur aukin lífsgæði og margþættari upplifun og upplýsingu en formæður okkar og áar nutu í einangrun sinni og einsleitni.

Auðvitað sér maður samt æsku sína í rósrauðum bjarma. Heima á Akureyri voru allir strákar meira og minna í sömu peysunni úr Sambandsverksmiðjum Heklu og voru sendir út í búð af mæðrum sínum að kaupa bæði brauðin, ef vel stóð á í heimilishaldinu. Það var fiskur fimm daga vikunnar, skyrhræra á föstudögum, afgangar á laugardögum og læri eftir messu um miðbik á sunnudags.

Og þetta var fín æska, einföld og örugg.

En það var margt falið í þessu gamla samfélagi, ógnarmargt sem ekki mátti tala um og ofríki og oflæti stofnana, fyrirtækja og valdablokka teiknaði upp kolranga mynd af því sem svaraði til þarfa og vilja fólksins.

Þegar fjölmiðlun hafði kastað af sér þyngsta klafa flokksblaðanna um og upp úr miðjum áttunda áratugnum og rannsóknarblaðamennska hafði öðlast vægi á þeim áttunda birtist Ísland Íslendingum í sinni raunverulegu mynd, jafnt brotinni og óbrotinni; allt heimilisofbeldið og ofsadrykkjan var þarna til staðar ásamt kynferðislegu níðingsverkunum sem höfðu svo lengi legið í þagnargildi. En líka hitt, einmitt fegurð fjölbreytninnar; frelsi til ásta, listsköpunar og tilrauna af öllu tagi, jafnt í tísku sem tali, atlæti og umfjöllunar um samfélagið. Og allt í einu og skyndilega mátti byrja að tala um tabúin; samkynhneigð, alkóhólisma, þunglyndi og sjálfsvíg. Það þurfti ekki lengur að þegja. Það mátti jafnvel líka hlæja, meira að segja um Páskana.

Veikt andsvar íhaldsaflanna við þessari hröðu þróun sem breytti algerlega íslensku samfélagi á innan við aldarfjórðungi varð samám saman að aðhlátursefni, svo sem guðlastskæra Biskupsstofu á hendur Spaugstofunni á sínum tíma og andstaða íhaldskurfa við að leyfa sölu bjórs á meðan almenningur blandaði sér bjórlíki, þá mestu niðurlægingu íslenskrar áfengissögu, að ekki sé minnst á hræðsluna við einkarekna ljósvakamiðla sem taldir voru myndu forheimska þjóðina til frambúðar.

Áttundi áratugur síðustu aldar - með kvennaafrídegi um hann miðjan - og svo allur sá áttundi er tími mesta breytingaskeiðs í upplýsingu og athafnafrelsi íslenskrar þjóðar. Og þar ber ekki síst að þakka útlendingum fyrir þeirra skerf til aukinnar fjölbreytni í mat og drykk, tónlist og kennslu og nýrrar og frjórrar hugsunar, nefnilega þeirrar að við landsmenn værum partur af einhverju öðru en sjálfum okkur, þyrftum til dæmis ekki lengur að taka með okkur niðursoðinn saxbauta á sólarströnd af eintómum ótta við útlenskan mat og siði.

Einmitt svo; innprentaður óttinn var að víkja fyrir eðlilegri þekkingu og fræðslu, einmitt í krafti stóraukinnar og betri fjölmiðlunar og meira vits í umræðunni, þar á meðal þess að íslenskt samfélag gæti talist gallað, ekki endilega fullkomið og engin ástæða væri til breytinga eða batnaðar.

Og á endanum varð íslenskt samfélag fjölbreyttara en það hafði verið um aldur og ævi. Og það þarf meira af svo góðu, enda afturhaldið augljóst á svo mörgum sviðum enn, svo og forsjárhyggjan og tilhneygingin að eitthvert æðra vald, andlegt sem veraldlegt eigi að hafa vit fyrir almenningi og sé honum jafnvel rétthárra; megi meira og eigi meira.

Afturhaldið elskar einsleitni. Það er vegna þess að því fjölbreyttara sem samfélagið verður þeim mun heilbrigðara verður það og þeim mun minna þarf að fela og óttast.

Þetta á við um útflutning eins og innflutning, viðskipti og efnahag, menningu og listir, mat og trúarbrögð, en líka pólitíkina; þar þarf fjölbreyttari kosti en verið hafa við lýði um langan mannsaldur því það styttir leiðir milli flokka, auðveldar þeim að tala saman, færir okkur nærri sáttinni og málamiðluninni sem er heilbrigðari og manneskjulegri en gamla krafan um að allir aðrir en maður sjálfur hafi rangt fyrir sér.

Fjölbreytni skiptir mestu. Hún er andstaða einsleitni. Hún er móthverfa þess að steypa alla í sama mót svo þeir séu meðfærilegri og auðveldari viðfangs fyrir einsleita valdastétt.

Það er nefnilega styrkur þjóðar að geta sýnt hver hún raunverulega er, hvað henni býr í brjósti og hvað hún getur gert upp á eigin spýtur í krafti fjölbreytninnar.

Og hvað er einmitt mikilvægara en að vita að við erum ekki öll eins - og viðurkenna að þar er komin mesta prýði samfélagsins.    

 

Nýjast