Fjármálaeftirlitið segir vr óheimilt að afturkalla umboð stjórnarmanna í lífeyrissjóði verzlunarmanna

Á dögunum kallaði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, saman fulltrúaráð VR gagnvart Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Fulltrúaráðið afturkallaði þar umboð fjögurra stjórnarmanna stéttarfélagsins í stjórn LV. Fjármálaeftirlitið segir þó að VR sé óheimilt að afturkalla umboð stjórnarmanna í LV og lítur því svo á að stjórn LV sitji enn.

Þann 23. maí ákvað stjórn LV að hækka vexti verðtryggðra lána sjóðsins um 0,2 prósentustig. Ragnar Þór brást illa við og sagði ákvörðunina stríða gegn nýgerðum lífskjarasamningum. Lagði hann fyrir stjórn VR tillögu um afturköllun umboðs hinna fjögurra stjórnarmanna sem félagið tilnefnir í stjórn LV. Fulltrúaráð VR gagnvart Lífeyrissjóði verzlunarmanna var í kjölfarið kallað saman og tilnefndi nýja stjórnarmenn.

FME beindi fyrirspurn um málið til stjórnar LV, sem svaraði að fengnu áliti utanaðkomandi lögmanns. Um leið gaf FME það álit, munnlega, til formanns stjórnar LV, að stofnunin liti svo á að stjórnin sæti enn.

Nú hefur FME skilað skriflegu áliti um málið og er niðurstaða þess svohljóðandi:

„Fjármálaeftirlitið ítrekar að stjórn lífeyrissjóðsins skal ávallt hafa þá hagsmuni í huga sem nefndir eru í 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 20. gr. Laga nr. 129/1997 við ákvörðunartöku fyrir hönd sjóðsins. Að mati Fjármálaeftirlitsins  er stjórn lífeyrissjóðsins óheimilt að hafa aðra hagsmuni í huga við ákvörðunartöku fyrir hönd sjóðsins, þ.á.m. við töku um ákvörðun vaxta fasteignaverðtryggðra lána til sjóðfélaga.

Af framangreindu má draga þær ályktanir að ef ákvörðun um afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna lífeyrissjóðsins og skipun nýrra aðila af hálfu VR byggð á framangreindum sjónarmiðum VR frá 18. júní sl., nær fram að ganga megi líta svo á að um tilraun til beinnar íhlutunar í stjórn lífeyrissjóðsins sé um að ræða, sem með óbeinum hætti er ætlað að færa ákvörðunarvald frá stjórn lífeyrissjóðsins. Það vegur að sjálfstæði stjórnar og góðum stjórnarháttum.

Fjármálaeftirlitið vill, með hliðsjón af þeirri óvissu sem einkennir málið, beina því til stjórnar lífeyrissjóðsins að taka samþykktir sjóðsins til skoðunar varðandi hvort  og þá við hvaða aðstæður tilnefningaraðilar geti afturkallað umboð stjórnarmanna, m.a. til að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna gagnvart hagsmunum tilnefningaraðila.“