Fjallaskálar íslands: þórsmörk

Annar þátturinn í sögu íslenskra fjallaskála verður frumsýndur á Hringbraut í kvöld, en þar aka sjónvarpsmenn inn í einhverja fegurstu vin landsins sem Þórsmörk er, andspænis Goðalandinu, hinum megin Krossár sem hefur marga bílana bleytt að innaverðu í árafjöld.

Skagfjörðsskáli stendur í mynni Langadals, einna mestur gistihýsa Ferðafélags Íslands inn til óbyggða, sögulegur í meira lagi fyrir svo margra hluta sakir, svo sem reimleikana úr honum Eyþóri sem er alltaf svangur og vill láta leggja á borð fyrir sig ef aðrir taka upp kostinn.

Í þáttunum kynnast áhorfendur sögu skálanna inn til landsins, náttúrufarinu í kring og gönguleiðum í grennd, með aðstoð sérfræðinga á borð við Hjörleifs Guttormssonar náttúrufræðings og skála- og landvarða á staðnum, en þar fer saman fræði og upplýsing og skemmtilegar stemningar.

Í fyrsta þættinum fyrir viku lá leiðin í Landmannalaugar, en að viku liðinnu verður svo farið í Lónsöræfi, þar á eftir i Kverkfjöll, uns Dyngjufjöll og Herðubreið blasa við augum áhorfenda.

Umsjón þáttanna er í höndum Sigmundar Ernis Rúnarssonar, kvikmyndatöku annast Bjarni Svanur Friðsteinsson, ásamt Hauki Sigurbjörnssyni, en klipping er í höndum Loga Sigursveinssonar.