Ferðafélagsþættirnir sýndir í einni beit

Það er full ástæða fyrir fjallafólk og annað áhugafólk um ferðalög um óbyggðir landsins að gleðjast yfir dagskrá Hringbrautar í kvöld, en þá endursýnir stöðin alla fjóra þættina um 90 ára sögu Ferðafélags Íslands sem sýndir hafa verið undanliðin fimmtudagskvöld í sumar.

Þættirnir voru teknir upp síðastliðið vor og byrjun sumars undir stjórn sjónvarpsmannsins Sigmundar Ernis Rúnarssonar en þar ræðir hann við fjölda fólks sem gjörþekkir bæði sögu Ferðafélagsins og þá öru þróun og auknu vinsældir sem ferðamennska á fjöllum hefur verið í og notið á síðustu árum.

Það er vegna fjölda áskorana sem þættirnir eru nú endursýndir í einni beit, frá klukkan 20:00 til 22:00 í kvöld, en eðlilega misstu margir landsmenn af sýningu þeirra í júlímánuði þegar fólk er hvað mest á flandri út um allar koppagrundir landsins.

Þættirnir eru unnir í samvinnu við Ferðafélag Íslands. Kvikmyndastjórn annaðist Haukur Sigurbjörnsson og tónlust þáttanna samdi Oddur Sigmunds Báruson.