Féllu í sjóinn í trékyllisvík

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar björguðu í morgun tveimur mönnum sem fallið höfðu í sjóinn við Stóru Ávík í Trékyllisvík á Ströndum norður, en björgunarskip frá Skagaströnd var einnig kallað út vegna óhappsins.

Svo virðist sem mennnirnir hafi verið í klettum þegar annar þeirra fellur í sjóinn og hinn fer honum til bjargar en fellur þá sjálfur. Rúmri hálfri klukkustund eftir að útkall barst eru fyrstu björgunarmenn komnir á staðinn og fóru þeir niður að mönnunum og náðu þeim upp. Voru þeir hraktir og kaldir eftir volkið í sjónum. 

 Rúmlega 20 björgunarmenn tóku þátt í aðgerðinni og voru fleiri á leið á svæðið en voru afturkallaðir.