Fangar fá ekki að sjá börn sín í allt að tvo mánuði: „menn á sínum versta stað þurfa á fjölskyldu sinni að halda“

„Staðan á Litla-Hrauni er töluvert verri í dag og síðustu ár heldur en hún var fyrir áratug síðan. Það eru veikari einstaklingar sem eru vistaðir í fangelsum í dag, lengra leiddir fíklar til dæmis. Það hefur verið að þrengja mikið að föngum á Litla-Hrauni. Það er búið að taka líkamsræktartæki úr íþróttasölunum, það er búið að þrengja að heimsóknarreglum þannig að fangar fá í dag mun færri heimsóknir heldur en var áður.“

Þetta segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, um hvernig komið er fyrir föngum á Litla-Hrauni í dag. Guðmundur Ingi var gestur Kristjóns Kormáks í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld.

Þrengdar heimsóknarreglur fela meðal annars í sér að fremji fangi agabrot getur það leitt til þess að hann megi ekki sjá barn sitt í allt að tvo mánuði. „Ef þú færð aðvörun, sem getur verið fyrir óhlýðni, neyslu, eða eitthvað slíkt, þá missir þú réttinn til að hitta barnið þitt. Barnið fær ekki að koma að heimsækja þig og þar af leiðandi er verið að brjóta á rétti barnsins,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann segir að Afstöðu þyki þessar reglur stífar en kveðst þó veita því skilning að vissar reglur séu settar í þessum málum. „Auðvitað vill enginn að barn sé að fara að hitta einhvern sem er undir áhrifum fíkniefna, það er ekki eðlilegt.“

„Aftur á móti er þetta alveg gífurlega langur tími og þegar menn eru á sínum versta stað þá þurfa þeir á fjölskyldu sinni að halda og börn fanga þurfa mikið á foreldri sínu að halda. Þannig að þetta er svolítið erfitt mál.“

Guðmundur Ingi segir að það sé aðeins á síðustu árum sem þetta hafi verið að breytast til hins verra. Hann nefnir fleiri dæmi af þrengdum réttindum fanga: „Það er búið að taka allar tölvur af föngum í lokuðum fangelsum, þeir hafa þó aðgang að tölvum í námi en það er mjög takmarkaður tími sem þeir fá.“ Fangar mega því ekki lengur hafa tölvur inni í klefum sínum.

„Föngum hefur verið bannað að vera inni í klefum hjá öðrum föngum, að heimsækja aðra fanga. Þú ert í raun og veru í meiri einangrun heldur en ætti að vera,“ segir hann einnig.

Fangelsismálin fjársvelt

Aðspurður um hvenær fangelsismálayfirvöld hafi byrjað að þrengja að föngum með þessum hætti segir Guðmundur Ingi að það hafi verið í kringum efnahagshrun. Þá hafi byrjað að bera á vöntun á fjármagnsveitingu til málaflokksins.

„Það er nú þannig að fangelsismálin eru fjársvelt hér á Íslandi og það er ekki auðvelt að fá pening í þennan málaflokk. Það hefur aftur á móti verið auðveldara að fá pening í allt sem tengist öryggi, með ákveðnum hræðsluáróðri. Fá myndavélar og hærri girðingar. Það er eins og stjórnmálamenn veiti meiri pening í þetta heldur en betrunarhliðina, eitthvað sem snýr að menntun og afþreyingu fyrir fanga,“ segir hann og bætir því við að menntun hafi farið mjög aftur í fangelsum landsins.

Viðtalið í heild sinni má nálgast hér: