Fákeppnisrisar vilja ákveða hvað þú borðar

„Þetta er ekki bara fákeppni  í að nýir aðilar komist inn á markaðinn. Þegar aðilar eru orðnir stórir og missa þessa tengingu við viðskiptavinina, þá gerist það að þeir byrja að ákveða mótið fyrir viðskiptavininn. Þeir vilja ákveða hvað þú átt að borða í matinn, það er mjög hættulegur vegur að feta. Þeir kippa út vörum sem fólk hefur kannski keypt í áratugi og setja sína vöru [í staðinn] sem þeir kaupa inn á miklu lægra verði. Neytendur eru ofboðslega ósáttir við þetta, þeir eru að missa vöru sem þeir hafa keypt í áratugi. Hvað geta þeir gert? Þeir geta ekkert gert. Það er ekkert annað, það er fákeppni.“

Þetta segir Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, stofnandi nýrrar matvörubúðar er nefnist Super1, og vísar til fákeppni á matvörumarkaði á Íslandi þar sem þrjár stórar keðjur, Hagar, Krónan og Samkaup, ráða lögum og lofum. Hann segir fákeppni ríkja til þess að komast inn á markaðinn og svo hefur fákeppnin þau áhrif á neytendur hafi ekki val.

Sigurður Pálmi var gestur Sigmundar Ernis í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld, þar sem hann ræddi  verslun sína og erfiðleikana sem geta steðjað að nýjum matvörubúðum á markaði þar sem fákeppni ríkir.

„Þetta er náttúrulega út af því að landið er lítið, út af því að við erum úti í ballarhafi, þá kannski er þetta aðeins auðveldara. Ef þú ferð til Grænlands þá er ástandið örugglega miklu verra. Aðstæðurnar okkar bjóða frekar upp á þetta. Í öðrum löndum, þessum samanburðarlöndum, er kannski meiri samkeppni á markaðnum. Maður sér endalaust af keðjum, t.d. í Danmörku, þar sem er meiri samkeppni. En svo veit maður ekkert hvernig er á bakvið tjöldin, það gæti verið að fákeppni sé frekar hjá framleiðendunum eða eitthvað slíkt. Það er oft víða pottur brotinn,“ segir Sigurður Pálmi.

Sigurður Pálmi segir að Samkeppniseftirlitið hafi gert sér kleift að festa kaup á þremur verslunum fyrir Super1. „Þeir eru að reyna að brjóta þetta upp svo þessi fyrirtæki verði ekki of stór.“

Aðspurður hvort hann óttist að fara á hausinn neitar Sigurður Pálmi því og kveðst kominn til að vera.

Viðtalið við Sigurð Pálma í heild sinni er að finna hér: