Erla stefnir ríkinu: „ég var alltaf að vonast eftir svörum frá katrínu jakobsdóttur“

Erla Bolladóttir hefur ákveðið að stefna íslenska ríkinu vegna höfnunar endurupptökunefndar á beiðni hennar um endurupptöku dóms hennar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Þetta segir hún í viðtali við Morgunblaðið í dag. Erla var á sínum tíma dæmd í þriggja ára fangelsi fyrir meinsæri.

Sævar Ciesielski, Kristján Viðar Viðarsson, Tryggvi Rúnar Leifsson, Guðjón Skarphéðinsson og Albert Klahn Skaftason voru allir sýknaðir af Hæstarétti í fyrra eftir að endurupptökunefnd féllst á að þeir fengju mál sín tekin upp að nýju. Sævar, Kristján og Tryggvi voru sakfelldir fyrir að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana og Guðjón, Kristján og Sævar voru sakfelldir fyrir að hafa orðið Geirfinni Einarssyni að bana. Albert var auk þess sakfelldur fyrir tálmun á rannsókn málsins. Allir voru þeir sýknaðir í þessum málum eftir endurupptöku þeirra.

Sævar, Kristján og Erla voru auk þessa fundin sek um meinsæri, þar sem þeim var gefið að sök að hafa í sameiningu lagt á ráðin um að bera sakir á fjóra menn. Endurupptökunefndin féllst ekki á að taka þá dóma upp og því standa þeir enn. Erla krefst þess að öll þrjú verði sýknuð af þessum sökum.

„Ég krefst þess að niðurstaða endurupptökunefndar í mínu máli verði ógilt,“ segir Erla. „Upphaflega var ég ákærð fyrir meinsæri gagnvart fjórum saklausum aðilum og dæmd fyrir það í sakadómi sem þá var. Þessum dómi var áfrýjað til Hæstaréttar þar sem hann var staðfestur.“

Hún segir að sú niðurstaða sé alvarlega tæknilega gölluð. „Þetta meinta meinsæri nær til þriggja manna en ekki fjögurra. Ég bar sakir á þá Einar Bollason, Sigurbjörn Eiríksson og Magnús Leópoldsson en sá fjórði, Valdimar Olsen, sem ég var dæmd fyrir að bera meinsæri gegn, kemur hvergi fram í málsskjölum utan það að ég sagði á einum stað að Sævar hefði sagt að hann hefði verið á tilteknum stað. Þetta er yfirsjón á öllum stigum málsins og að mínu mati og Ragnars Aðalsteinssonar, lögfræðings míns, nóg til að taka málið upp aftur.“

Erla hefur verið í sambandi við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra vegna málsins og hittust þær á fundi í lok desember í fyrra. „Mín ósk var að það yrði hægt að semja við mig utan dómskerfisins og spara þannig bæði tíma, álag og fé sem myndi fara í málarekstur. Katrín sagðist ætla að kanna málið nánar sjálf með sínu fólki, eins og hún orðaði það. Ég var ánægð með það. En síðan þá hef ég ekkert heyrt frá forsætisráðuneytinu, þrátt fyrir að hafa ítrekað haft samband,“ segir Erla.

Katrín segir að meðferð málsins hafi tekið lengri tíma innan forsætisráðuneytisins en búist hafði verið við. „Mér þykir það leitt,“ segir Katrín og bætir því við að málið verði tekið upp á nýjan leik innan ráðuneytisins í haust.

Gat ekki meira

Endurupptökunefnd komst að niðurstöðu sinni fyrir tæpu ári síðan. Erla segir ástæðuna fyrir því að hún kærir niðurstöðuna ekki fyrr en nú vera þá að hún hafi hreinlega ekki getað meir á þeim tímapunkti:

„Ég var alltaf að vonast eftir svörum frá Katrínu Jakobsdóttur. Önnur ástæða er að ég varð fyrir miklu áfalli í kjölfar höfnunar endurupptökunefndar. Það var í fyrsta skiptið, síðan þetta allt byrjaði, að mér fannst ég ekki geta meira. Skyndilega þekkti ég ekki sjálfa mig; ég, sem hef alltaf staðið mína vakt, gat ekki meira. Ég var á sama stað og ég tel að Sævar hafi verið á þegar hann ákvað að snúa baki við lífinu og ég greindist síðar með alvarlegt tilfelli áfallastreituröskunar.“