Engin útganga líklegri en útganga án samnings

Kosið um Brexit samning May á morgun:

Engin útganga líklegri en útganga án samnings

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, mun í ræðu í dag segja að verði útgöngusamningur hennar vegna Brexit felldur í breska þinginu á morgun sé líklegra að ekkert verði af útgöngu úr Evrópusambandinu yfir höfuð, fremur en að útganga án samnings eigi sér stað. Þetta kemur fram í frétt Sky, sem hefur afrit af ræðu sem May mun flytja í dag undir höndunum.

Fastlega er búist við því að útgöngusamningur May verði felldur í þinginu á morgun þegar kosning um hann fer fram. Í gær greindi m.a. Business Insider frá því að þingmenn þvert á flokka breska þingsins hyggist hrifsa löggjafarvaldið af May verði samningurinn felldur, með því að breyta reglum neðri deildar þingsins og taka yfir löggjafarvaldið. Þessir þingmenn muni svo reyna að vinna að betri skilmálum vegna útgöngu, frestun eða stöðvun á Brexit.

May mun flytja ræðuna í verksmiðju í Stoke, en á því svæði kaus mikill meirihluti  með útgöngu, eða 69,4 prósent. Í ræðunni mun May m.a. segja að breskir þingmenn muni beita öllum mögulegum leiðum til að fresta eða jafnvel stöðva Brexit. „Miðað við það sem hefur átt sér stað í síðustu viku er líklegra að þingmenn komi í veg fyrir Brexit en að Bretland yfirgefi Evrópusambandið án samnings“, segir May skv. tilkynningu frá Downing Steet 10, skrifstofu forsætisráðherra.

Samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit sumarið 2016 hlaut útganga nauman sigur og áætlað er að Bretland yfirgefi Evrópusambandið þann 29. mars næstkomandi, burtséð frá því hvort samningur milli þeirra hafi náðst eður ei.

„Ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar er ekki virt, mun trú fólks á stjórnmálum bíða varanlegan skaða“, mun May einnig segja í ræðunni.

Nýjast