Engin sól á höfuðborgarsvæðinu á næstu dögum - skýjað eða rigning alla vikuna

Veðurspáin fyrir vikuna lítur ekki vel út fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins, en spáð er rigningu alla vikuna. Borgarbúar hafa notið sólarinnar undanfarnar vikur, en sáralítil úrkoma hefur verið undanfarnar tvær vikur á höfuðborgarsvæðinu. Sól verður á austanverðu landinu þar til á fimmtudag, en þá byrjar að rigna. Veðurhorfur á landinu næstu daga má sjá hér að neðan.

Á þriðjudag og miðvikudag: Vestan 8-15 m/s, en hægari vindur austast á landinu. Dálítil væta af og til vestantil á landinu, en léttskýjað á austur helmingi landsins. Hiti 8 til 22 stig, svalast vestast en hlýjast á Suðausturlandi. 

Á fimmtudag: Suðvestan 5-10 m/s og dálítil rigning, en áfram þurrt og bjart austantil á landinu. Hiti 10 til 21 stig, hlýjast austantil. 

Á föstudag: Sunnan 5-10 og víða rigning, en úrkomulítið norðaustantil. Hiti 10 til 16 stig. 

Á laugardag: Útlit fyrir austlæga átt og dálitla vætu um land allt. Hiti 11 til 16 stig. 

Á sunnudag: Líkur á norðlægri átt og rigningu norðantil en skúrum syðra. Kólnar í veðri.