Ekki sama reykjavík og landið

Stjórnsýslan og hagsmunaöfl í Reykjavík hagar sér öðruvísi gagnvart fámennum landsbyggðarsvæðum en þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins; það sem má á höfuðborgarsvæðinu er harðbannað úti á landi.

Þetta er mat Kristins H. Gunnarssonar, ritstjóra Vestfirðings og bb.is og undir þetta tekur Björgvin G. Sigurðsson, ritstjóri Suðra, en þessir tveir fyrrverandi þingmenn eru gestir Sigmundar Ernis í Ritstjórunum í kvöld.

Kristinn fer mikinn í þættinum og segist aldrei hafa upplifað jafn þungt hljóð í Vestfirðingum og eftir ákvörðun Úrskurðarnefndar í umhverfis- og auðlindamálum um framhald sjókvíaeldis á sunnanverðum Vestfjörðum; menn upplifi það svo að Reykjavíkurvaldið sé að níðast á samfélaginu fyrir vestan og fara gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Í þættinum er einnig rætt um hrunafmælið, en Björgvin og Kristinn voru báðir í auga stormsins fyrir áratug, sá fyrrnefndi sem viðskiptaráðherra og sá síðarnefndi sem þingmaður sem var við það að missa vinnuna við Austurvöll.

Ritstjórarnir hefja upp raust sína skömmu eftir klukkan 21, þegar samnefndur fréttaþáttur hefst á Hringbraut.