Eiríkur um mannanafnafrumvarpið: „þetta er fyrst og fremst mannréttindamál“

„[Ég sé] að mannanafnafrumvarpið var fellt á Alþingi í nótt. Það var auðvitað viðbúið fyrst VG lagðist gegn því. Vissulega er það rétt að frumvarpið var ekki fullkomið þótt breytingartillögur minnihlutans bættu það verulega. Það kom mér hins vegar óþægilega á óvart að heyra forsætisráðherra í atkvæðaskýringu segja það grundvallaratriði að breytingar á mannanafnalögum verði ekki teknar úr samhengi við íslenska málstefnu.“

Á þessum orðum hefst færsla Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, á Facebook-síðu hans í dag.

Eiríkur segir að í túlkun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra felist að lög um mannanöfn varði fyrst og fremst íslenskt mál. „Það er að mínu mati grundvallarmisskilningur. Þetta er fyrst og fremst mannréttindamál og sem slíkt engu léttvægara en önnur mikilvæg mannréttindamál sem hafa verið afgreidd undanfarið - undir forystu VG.“

„Það hafa engin rök verið færð fyrir því að breytingar á mannanafnalögum komi íslenskunni illa,“ segir hann.

Ekki von á endurskoðun fyrr en eftir nokkur ár

Eiríkur segir að þar sem nú eigi að bíða eftir endurskoðun íslenskrar málstefnu standi greinilega ekki til að hrófla við mannanafnalögum á þessu kjörtímabili, „því að samkvæmt nýsamþykktri þingsályktun um eflingu íslensku sem opinbers máls á þeirri endurskoðun ekki að ljúka fyrr en í árslok 2021. Þá er fyrst hægt að fara að endurskoða mannanafnalög samkvæmt þessu þannig að við megum enn bíða í a.m.k. þrjú-fjögur ár eftir nýjum lögum.“

„Á meðan sitjum við uppi með lög sem fela í sér skýr mannréttindabrot og megum búast við fjölda dómsmála sem ríkið mun væntanlega tapa eins og öllum málum út af lögunum hingað til - málum sem valda þeim sem í hlut eiga ómældri fyrirhöfn og hugarangri en ríkinu kostnaði,“ segir að lokum.

Mátti loks heita Alex

Dæmi um mál líkt og það sem Eiríkur vísar til er mál sex ára stúlku sem var gefið nafnið Alex Emma. Mannanafnanefnd úrskurðaði að hún mætti ekki heita Alex þar sem að engin dæmi væru um að það væri notað sem kvenmannsnafn hér á landi, en það væri töluvert algengt sem karlmannsnafn.

Í kjölfar úrskurðarins stóðu foreldrar hennar í baráttu við íslenska ríkið í fimm ár. Fór svo að lokum að héraðsdómur Reykjavíkur felldi úrskurð mannanafnanefndar úr gildi í mars á þessu ári og Alex Emma, sem var einungis skráð sem „Stúlka“ í þjóðskrá fyrstu sex ár ævi sinnar, fékk loksins að bera nafn sitt.