Einnig ráðist á heimasíðu KSÍ – Sami hakkarahópur lýsir yfir ábyrgð

Einnig ráðist á heimasíðu KSÍ – Sami hakkarahópur lýsir yfir ábyrgð

Hópurinn lýsti yfir ábyrgð á Twitter
Hópurinn lýsti yfir ábyrgð á Twitter

Tyrk­neski hakkarahópurinn Anka Neferler Tim segist bera ábyrgð á tölvuárás sem átti sér stað í morgun á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands. Sami hópur réðist á heimasíðu Isavia í gær.

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir í samtali við Fréttablaðið að árásin sé keimlík þeirri sem átti sér stað í gær á heimasíðu Isavia. Um svokallaða d-dos árás var að ræða, en hún lýsir sér þannig að látið er líta út fyrir að umferð þyngist um muna á síðunni, sem veldur því að hún dettur út. Síðan lá niðri í um hálftíma.

„Advania er að vinna að málinu fyrir okkur og greinir vandann og reynir að koma í veg fyrir frekari árásir,” segir Klara og býst ekki við að árásin muni hafa frekari áhrif á heimasíðuna. Höfuðáhersla verði lögð á að vernda gögn KSÍ.

Hakkarahópurinn lýsti yfir ábyrgð á báðum árásum á Twitter-síðu sinni en svo virðist sem nú sé búið að fjarlægja færsluna þar sem gengist var við árásinni á heimasíðu KSÍ.

Í yfirlýsingu vegna árásarinnar á heimasíðu Isavia í gær greindi Anka Neferler Tim frá því að ástæðan fyrir árásinni væri vegna móttökunnar sem tyrkneska landsliðið fékk við komu sína til Íslands. Þar voru landsliðsmenn og aðrir starfsmenn afar ósáttir við langan biðtíma á flugvellinum. Forsvarsmenn Isavia hafa þó greint frá því að Tyrkir hafi verið komnir á hótel sitt innan við tveimur klukkustundum eftir að hafa lent á Keflavíkurflugvelli.

Auk þess ætlaði allt um koll að keyra á samfélagsmiðlum þegar belgískur maður otaði uppþvottabursta að Emre Belözoğlu, fyrirliða landsliðsins, við komuna á Keflavíkurflugvöll og þóttist taka viðtal við hann. Tyrkir töldu fyrst um sinn og telja raunar margir enn að maðurinn væri íslenskur íþróttafréttamaður. Telja þeir þessa gjörð Belgans vera rasíska og hafði mikill fjöldi fólks í hótunum við Íslendinga á Twitter í gær og í dag vegna þessa atviks.

Nýjast