„einmanalegt að eiga brjálað barn“

Ellefu ára gömul stúlka, sem er að sögn móður hennar geðveik og með einhverfugreiningu, er aftur komin með skólavist. Í síðustu viku var Hrönn Sveinsdóttur, móður stúlkunnar, tilkynnt að skólinn sem hún hefur sótt treysti sér ekki lengur til að tryggja öryggi hennar eða starfsmanna skólans.

Í harðorðu opnu bréfi til Svandísar Svavarsdóttur sem birtist fyrir helgi krafðist Hrönn þess að brugðist yrði við og að dóttir hennar fengi skólavist og ráðgjöf sem hentaði henni.

„Hún er búin að fá tímabundið úrræði í Hamraskóla. Ég fékk að vita það seint á föstudag að það væri búið að redda því og það kemst í gagnið eftir 6. maí. Ég fer á fund eftir páska til að ræða það, en eftir stendur krafa mín um að við fáum aðgang að einhverfuráðgjafa sem er með okkur í meðferð, bæði okkur foreldrana og hana. Að hjálpa til við heimilið og lífið,“ segir Hrönn í samtali við Fréttablaðið.

Hún vill bæði fá hjálp heima við og í skólanum. „Ég vil komast í meðferð við hennar tegund af einhverfu og það eru til ráðgjafar sem sérhæfa sig í einhverfu stúlkna og auðvitað á ríkið að veita mér aðgang að þeim. Ég gæti auðvitað sótt um þetta persónulega, en ég neita að þetta sé mitt einkamál,“ segir Hrönn.

Hrönn segist hafa upplifað mikinn stuðning eftir að hún birti bréfið en sömuleiðis finnst henni það ótrúlegt hvað hún hafi heyrt í mörgum foreldrum sem eru í sömu eða jafnvel verri stöðu en hún. Fólk hafi jafnvel verið með börnin sín utan skóla í marga mánuði, ef ekki ár. Því upplifi fólk sig eitt og því þurfi nauðsynlega að breyta.

„Það er rosalega einmanalegt að eiga brjálað barn af því að þú getur ekkert rætt við aðra. Það skilur enginn um hvað þú ert að tala. Þú ræðir þetta ekkert endilega við vini í matarboði. Þannig ég held að margir þurfi að tala við aðra um hvernig þetta er. Það er rosalega erfitt að finnast maður vera misheppnað foreldri og það sé ekkert hægt að gera. Það er fullt af fólki sem vill bara ræða það,“ segir hún og finnst ekkert eðlilegt við að það þurfi að skrifa opip bréf og ræða við fjölmiðla til þess að fá aðstoð fyrir börn sín.