Eggert ræðst harkalega á reykjavík media

Það er búið að einkavæða Panamskjölin þar sem Reykjavík Media hefur valið sér vini til að birta upplýsingar og fréttir upp úr gögnunum.

Þetta sagði Eggert Skúlason, ritstjóri DV í samtali við Bítið á Bylgjunni í morgun og réðist með því harkalega á Jóhannes Kr. Kristjánsson, rannsóknarblaðamann sem felldi með viðtali sínu og gagnasöfnun Sigmund Davíð af stalli. Jóhannes hefur heimilað Kjarnanum, Stundinni og Ríkisútvarpinu afnot af Panamakjölunum og munu miðlarnir vinna sjálfstæðar umfjallanir upp úr gögnunum ásamt Reykjavík Media.

Eggert sagðist velta fyrir sér hvort misnota ætti valda fjölmiðla fyrir kosningabaráttuna sem senn fer í hönd. Hann spurði af hverju öllum fjölmiðlum væri ekki hleypt að borðinu? Ákveðnum miðlum sem \"þættu hallir undir ákveðin öfl\" ættu að túlka skjölin eins og hentaði best. Þetta telur Eggert hneyksli og vill að Blaðamannafélagið hafi afskipti. Málið sé af þeirri stærðargráðu að við verði að bregðast.

Þá sagði Eggert að DV hefði ekki einu sinni verið svarað þegar blaðið falaðist eftir Panamagögnunum og á þar væntanlega við að Jóhannes Kr. Kristjánsson hafi ekki viljað afhenda DV gögnin. Hann sagði einnig að allir miðlar kepptu um athygli og smelli. Niðurstaðan gæti því snúist um peningalega mismunun. Enginn vafi mætti leika á því hvaða nöfn yrðu birt og hvaða nöfn ekki.

Þá sagði Eggert í viðtalinu að hann væri á því að Píratar ættu að hætta tali sínu og áherslum um siðbót.

Ritstjóri DV er sjálfur í Panamaskjölunum en hefur í samtali við eigin fjölmiðil vísað sök til föðurhúsanna.

 -BÞ