„ég hafði nú ekki alveg reiknað með þessu“

„Ég hafði nú ekki alveg reiknað með þessu. Ég held að þær hafi alveg fundið upp á þessu sjálfar stelpurnar. Hinar tvær og móðir þeirra verða að vera með bækur á næsta ári til þess að það verði balans í þessu“, segir Einar Kárason rithöfundur.

Einar hefur starfað sem rithöfundur um fjögurra áratuga skeið og því marga fjöruna sopið og verið reglulegur meðlimur jólabókaflóðsins. Það sem gerir jólabókaflóð þessa árs sérlega athyglisvert er að hann og tvær af fjórum dætrum hans, Júlía Margrét og Kamilla, gáfu öll nýverið út skáldsögur.

Einar og Júlía Margrét voru gestir Sigmundar Ernis Rúnarssonar í Menningunni í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi, þar sem þau ræddu m.a. hvernig það væri að tilheyra sannkallaðri rithöfundafjölskyldu og nýútkomnar skáldsögur sínar, Stormfuglar eftir Einar og Drottningin af Júpíter eftir Júlíu Margréti, sem er hennar fyrsta skáldsaga. Skáldsaga Kamillu, Kópavogskrónika, er einnig hennar fyrsta.

Óhætt er að segja að fjölskyldan tilheyri bókmenntaheimili. „Það var rosa mikið lesið fyrir mig þegar ég var yngri. Fram eftir aldri gat ég ekki sofnað án þess að það væri lesið fyrir mig. Það var svo mikill hluti af mínum veruleika sem átti sér stað í bókum þannig að ég tengdi rosa mikið við bækur. Ég held að það hafi haft áhrif á það að mig langaði sjálfri að fara að segja sögur“, segir Júlía Margrét.

Viðtalið í heild sinni við feðginin er að finna í spilaranum hér að neðan: