Dómurum við landsrétt hugsanlega fjölgað tímabundið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hugsanlega verði dómurum við Landsrétt fjölgað tímabundið í 15 á meðan Landsréttarmálið er rekið fyrir efri deild Mannréttindadómstóls Evrópu. Hún segir mikilvægt að óskað hafi verið eftir endurskoðun málsins, þó það kunni að framlengja þá óvissu sem hefur skapast í kjölfar úrskurðar MDE um ólögmæta skipan fjögurra dómara við Landsrétt. RÚV.is greinir frá.

Dómararnir fjórir hafa ekki starfað við réttinn síðan MDE komst að niðurstöðunni. Katrín telur ákveðin rök hníga til að skjóta málinu til efri deildar dómstólsins:

„Þau rök eru auðvitað fyrst og fremst þau að dómurinn er fordæmalaus og hann hefur áhrif á grundvalllardómstig í landinu og hefur mjög mikil áhrif hér á landi. Um leið er það svo að okkar færasta fólk hefur ekki verið á einu máli um hvernig eigi að túlka dóminn. Það sé ekki hafið yfir vafa hvernig eigi að túlka þennan dóm sem varðar grundvallardómstig í landinu,“ segir Katrín í samtali við RÚV. Því sé óvissa fyrir hendi.

„Þannig að ég tel rök fyrir því að vísa málinu til efri deildar. Það sem út úr því getur komið er að það kann að vera að Mannréttindadómstóllinn hafni því að taka málið upp. Og þá er bara fyrri dómur staðfestur með óbreyttum rökstuðningi og þá þarf að bregðast við því. Ef málið verður tekið áfram, þá hins vegar eru þeir valkostir að það verði hugsanlega staðfest með skýrari túlkun og nýjum rökstuðningi, nú eða þá að dómnum verði snúið við, það getum við auðvitað ekkert sagt til um,“ bætir hún við.

Aðspurð um hvort þörf sé á að fjölga dómurunum aftur í 15 segir hún: „Það kann að koma til þess. En hins vegar held ég að á meðan Mannréttindadómstóllinn tekur ákvörðun um hvort efri deildin tekur málið fyrir eða ekki, sem tekur nokkrar vikur, að það séu ekki hundrað í hættunni á meðan við bíðum eftir því.“