Dómsmálaráðherra að meta hvort löggæslan eða haraldur vegi þyngra: „mikill vandi sem ekki hefur verið tekið á“

Dómsmálaráðherra þarf nú að meta hvort vegi þyngra, löggæslan í landinu eða Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, segir þingmaður Samfylkingar. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að Ríkislögreglustjóri beri ábyrgð á ástandinu innan lögreglunnar. Hefur því verið haldið fram að Haraldur gangi fram með ógnar og óttastjórnun. Vísir birti í dag viðtal við þingmennina Þorstein Víglundsson hjá Viðreisn, Helgu Völu Helgadóttur hjá Samfylkingu og Sjálfstæðismanninn Vilhjálm Árnason, en þau voru gestir í Sprengisandi á Bylgjunni.

Helga Vala og Þorsteinn segja að ráðuneytið og þá dómsmálaráðherra verði að taka á málinu. Haraldur tjáði sig við Morgunblaðið og hélt þar fram að nú væri verið að reyna hrekja hann úr embætti, með rógburði og ósannindum.

Helga Vala Helgadóttir segir að staðan sé óheppileg og dómsmálaráðherra yrði að meta hvort vegur þyngra, löggæslan eða Haraldur:

„Hann vænir fólk um spillingu, hann talar um það að það sé óhæft fólk í hverju horni, að það sé ekki hægt að losna við ónýta starfsmenn. Þegar ríkislögreglustjóri er að tala um að það sé spilling innan lögreglunnar, það er grafalvarlegt mál.“

Þá sagði Þorsteinn Víglundsson: „Hér er að koma upp á yfirborðið eitthvað sem búið er að krauma mjög lengi undir niðri og þá auðvitað horfir maður til ábyrgðar ráðuneytis. Augljóst er að þarna hefur verið mikill vandi sem ekki hefur verið tekið á.“