„dóms­mála­ráð­herra fórn­aði sjálf­stæði dóms­tóla á alt­ari varnar fyrir full­veldi sjálfstæðisflokks­ins“

Svanur Kristjánsson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, telur að með ólöglegri skipan í Landsrétt hafi forystumaður í Sjálfstæðisflokknum enn einu sinni verið að verja fullveldi flokksins og ráðast á sjálfstæði dómstóla. Svanur segir nauðsynlegt að segja sögu þess sem hann kallar fullveldi Sjálfstæðisflokksins og rekur hana í pistli á Kjarnanum.

Hann veltir því fyrir sér hvað varð til þess að Sig­ríður Á. And­er­sen, fyrrverandi dóms­mála­ráð­herra, hafi ákveðið að fara ekki að lögum heldur beita geðþóttavaldi við skipan dómara í Landsrétt. „Helsta skýr­ingin blasir við: Dóms­mála­ráð­herra fórn­aði sjálf­stæði dóms­tóla á alt­ari varnar fyrir full­veldi Sjálfstæðis­flokks­ins. Fjórum meðal hæf­ustu umsækj­enda var vikið til hlið­ar. Einn þeirra var Ást­ráður Har­alds­son sem bæði Alþýðu­banda­lagið og VG höfðu til­nefnt til trún­að­ar­starfa. Eiríkur Jóns­son hafði sömu­leiðis unnið sér það til óhelgi að vera í fram­boði fyrir Sam­fylk­ing­una. Hin fjögur útvöldu – en síður hæf dóm­ara­efni að mati dóms­nefndar – voru hins vegar tengd Sjálf­stæð­is­flokknum og/eða ráð­herr­anum per­sónu­lega,“ skrifar Svanur.

Hann segir að þetta hafi byrjað með því að Sjálfstæðisflokkinn hafi reynt að verða ríki í ríkinu: „Árið 1995 sátu í rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokkur og Fram­sókn­ar­flokkur undir for­ystu Dav­íðs Odds­son­ar, for­manns þess fyrrnefnda. Flokk­ur­inn gerði til­kall til full­veldis innan landa­mæri íslenska rík­is­ins, að vera ríki í rík­inu. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hafði til dæmis tekið sér vald til skatt­lagn­ingar á fyr­ir­tækin í land­inu. Skatt­heimtu­menn á vegum fjár­mála­ráðs flokks­ins heim­sóttu eig­endur fyr­ir­tækja og til­kynntu þeim hversu mikið hvert fyr­ir­tæki skyldi greiða árlega í flokks­sjóð­inn. Í stað­inn nutu fyr­ir­tækin vel­vildar og fyr­ir­greiðslu – ekki síst hjá bönkum og opin­berum sjóð­um. Nú gengu tveir félagar úr fjár­mála­ráði flokks­ins, Sig­urður Gísli Pálma­son og Páll Kr. Páls­son, á fund Sig­urðar G. Guðjónsson­ar, stjórn­ar­for­manns Íslenska útvarps­fé­lags­ins, og sögðu honum að félagið ætti að borga fimm millj­ónir á ári til flokks­ins. Upp­hæðin væri reiknuð út frá stærð og veltu fyrirtækisins. Sig­urður neit­aði að borga.“

Svanur segir tap Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningum árinu áður, 1994, hafa verið ógn við fullveldi flokksins. „Sjálf­stæð­isflokk­ur­inn gat ekki lengur stundað sín hefð­bundnu fyrirgreiðslustjórn­mál þar sem flokks­for­ystan í Reykja­vík úthlut­aði opin­berum gögnum og gæðum en hlaut í stað­inn stuðn­ing og atkvæði í kosn­ing­um. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn var ekki lengur full­valda við stjórn Reykja­vík­ur.“

Svanur rekur þessa forvitnilegu sögu nánar í pistli sínum, sem er að finna hér.