Dauðalistar og samningar við kröfuhafa

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, var gestur í Þjóðbraut í gærkvöld. Undir lok samtalsins sagði Vigdís: „Nú skal ég upplýsa hvað er í leyniherberginu. Efnislega segi ég ekki frá því þar sem ég er bundin trúnaði.“

Vigdís ákvað sem sagt að segja efnislega hvaða gögn það eru sem eru geymd í svokölluðu leyniherbergi Alþingis.

„Þar er dauðalistinn, sem lá til grundvallar þegar ávkeðið var hvaða fyrirtæki voru tekin af eigendum og hver fengu að lifa. Þar er Pegasus- og Ponylistinn, sem er svipaður og dauðalistinn úr Arion, nema þessi frá Landsbankanum. Fyrirtæki sem voru yfir milljarð voru á Pegasus og fyrirtæki undir milljarði á Pony.“

Vigdís sagði annað og meira. Hún segir þar vera varðveitta alla samninga ríkisins við kröfuhafa, þegar eignarhaldið var fært yfir til kröfuhafa. „Undirritaðir af Steingrími J. Sigfússyni.“

Vigdís segir þar sé að finna fleiri fylgisskjöl og gögn sem hefur verið átt við. „Gögn sem er búið að klippa hluta af, jafnvel hálfar blaðsíður, gögn með yfirsikun og sem er búið að eyða, það er tóm skjöl.“

Hún sagði það vera baráttumál meirihluta fjárlaganefndar að gögnin verði opinberuð og svo almenningur fái að sjá hvað er í leyniherberginu. „Ég kemst ekki lengra með þetta.“

En er skýrsla Vigdísar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar byggð á þessum gögnum?

„Skýrslan væri líklega þrjátiu blaðsíðum stærri hefðum við fengið að nota þessi gögn. Við erum ekki að misnota aðstöðu okkar. Við höfum haldið trúnað alla leið.“