Castro-tímabilið á enda á kúbu

Castro-tímabilið, sem hófst með byltingu 1959 fyrir næstum 60 árum er senn á enda á Kúbu.

Tveggja daga þingfundur mun skera úr um hver tekur við forsetaembætti landsins af Raúl Castro, sem varð forseti við lát Fidels bróður hans 2006.

Alls 605 fulltrúar á Landsþingi Kúbu munu velja arftakann með leynilegri atkvæðagreiðslu og úrslitin verða að líkindum tilkynnt á morgun, fimmtudag.

Almennt er gert ráð fyrir að fyrir valinu verði fyrsti varaforseti landsins, Miguel Díaz-Canel.

Á þinginu kemur einnig í ljós hverjir verða valdir í 31 manns þjóðarráð Kúbu, sem er megin valdastofnun landsins. Landsþingið kemur aðeins saman tvisvar á ári.